136. löggjafarþing — 75. fundur,  5. feb. 2009.

gjaldþrotaskipti o.fl.

281. mál
[12:35]
Horfa

Jón Magnússon (Fl):

Virðulegi forseti. Ég vil þakka hæstv. dómsmálaráðherra fyrir skýra framsögu og andsvör, ég tek undir það sem hv. þm. Atli Gíslason sagði hvað það varðaði. Ég tek líka undir efnisatriði í máli hans, og einmitt það að það skiptir máli að afgreiða sem allra fyrst lög um greiðsluaðlögun eða breytingar á gjaldþrotaskiptalögunum. Þá er í sjálfu sér fyrst fyrir að líta það frumvarp sem flutt er af ríkisstjórninni — og ég gef ósköp lítið fyrir það hver eigi höfundarréttinn að frumvarpinu, hvort það hafi komið fram eitthvað örlítið breytt miðað við það sem áður hafði verið talað um eða ekki. Höfuðatriðið er að við fjöllum hér um mjög mikilvæga breytingu sem verið er að leggja til að gerð verði á lögum, breytingu sem skiptir máli og er allt of seint komin fram.

Sá sem hér stendur fór að berjast fyrir því að tekin yrðu upp lög um greiðsluaðlögun fyrir u.þ.b. 20 árum. Það er með ólíkindum að það skuli hafa tekið allan þennan tíma, og þurft efnahagshrun til, að ráðamenn þjóðarinnar skynjuðu nauðsyn þess að gera breytingar á löggjöfinni til samræmis við þá löggjöf sem er í gildi á öðrum Norðurlöndum. Um árabil var það eitt helsta baráttumál Neytendasamtakanna að gerð yrði breyting á lögum um gjaldþrotaskipti og tekin upp ákvæði um greiðsluaðlögun. Það hefur ákveðna og mjög víðtæka þýðingu í samfélagi að taka slíka löggjöf upp, hvort heldur um er að ræða samfélag eins og það sem við höfum í dag eða það samfélag sem við höfðum fyrir einu eða tveim árum. Það er nú einu sinni þannig að þau eru rétt orðin úr Nýja testamentinu, fátæka hafið þér ávallt hjá yður. Fólk er í mismunandi stöðu sem getur komið til af mörgu, m.a. vegna veikinda og ýmissa erfiðleika.

Þá skiptir máli að sú hugsun sem á sínum tíma lá því til grundvallar að sett voru lög um gjaldþrotaskipti sé útfærð með þeim hætti sem hentar í nútímasamfélagi, þ.e. að þeir sem ekki geta greitt skuldir sínar eigi ákveðið úrræði — gjaldþrotaskiptin voru á sínum tíma þannig hugsuð — og möguleika á því að rísa á fætur aftur. Hér á landi hefur það iðulega verið talið jafngilt glæp að verða gjaldþrota, en því fer fjarri að um slíkt sé að ræða. Í því sambandi má t.d. benda á að ýmsir helstu athafnamenn þjóðarinnar máttu þola það að verða gjaldþrota en gátu, miðað við þá löggjöf sem þá var við lýði, risið upp aftur og byggt upp ný fyrirtæki. Sennilega er Thor Jensen frægastur þeirra en mig minnir að hann hafi orðið gjaldþrota þrívegis en ítrekað náð að byggja upp blómleg fyrirtæki landi og þjóð til hagsældar.

Hvað sem menn vilja segja um áhættusækna fjárfesta nú á dögum þá eru áhættusæknir fjárfestar forsenda þess að fjölbreytt atvinnulíf þrífist og framfarir í einu landi. (Gripið fram í.) Það er hins vegar mjög mikilvægt, hv. þm. Mörður Árnason, að við markaðshyggjumennirnir gerum okkur grein fyrir því að markaðshyggjuna á að reka á sínum eigin forsendum en ekki á þann veg að menn geti tekið áhættu á forsendum annarra eins og verið hefur. Það er eitthvað það fáránlegasta sem við höfum horfst í augu við undanfarin ár að markaðshyggjumennirnir, kapítalistarnir, hafa tekið áhættu á minn kostnað og þjóðarinnar. Það er það sem er það ruglaða í því kerfi sem við búum við í dag.

Þetta var útúrdúr af því að við erum að tala um það með hvaða hætti við komum að varðandi það að leysa vanda þeirra sem lenda í greiðsluerfiðleikum. Ég er þá að tala um hugsunina á bak við gjaldþrotaskiptalögin og því til viðbótar greiðsluaðlögun eða skuldaaðlögun — það skiptir mig ekki máli hvort orðið er notað — þ.e. að sett er víðari regla um að hægt sé að leita úrskurðar um að fella skuldir hreinlega niður. Þá er spurt: Er það vitrænt í samfélaginu að um þvingunarúrræði sé að ræða í lögum, þvingunarúrræði um að skuldir séu felldar niður? Því er hægt að svara játandi vegna þess að ekki er um það að ræða að hægt sé að kreista fram peninga sem ekki eru til. Það kann að vera þjóðfélagsleg hagkvæmni, og er þjóðfélagsleg hagkvæmni, að fá faglega skoðun á því hvað viðkomandi skuldari getur greitt, gefa honum kost á að losa sig undan skuldum að öðru leyti, að hann greiði það sem hann getur greitt en aðrar skuldir verði felldar niður og hann geti eftir sem áður starfað í þjóðfélaginu.

Vandamálið í sambandi við gjaldþrotalögin eins og þau hafa verið, án þeirra úrræða sem hér eru lögð til, hefur verið það að fjölmargir einstaklingar hafa verið neyddir til að stunda svarta atvinnustarfsemi. Það er aldrei gott í einu þjóðfélagi að knýja á um það með lögum að fólk geti ekki stundað eðlilega arðsköpun og verið sjálfbjarga. Það er því mjög mikilvægt að frumvarpið verði að lögum.

Ég er mjög ánægður með að sjá þá opnun sem kveðið er á um í lagafrumvarpi ríkisstjórnarinnar hvað varðar fólk í atvinnurekstri. Þar er vikið að því að við ákveðnar aðstæður sé hægt að láta þetta taka til þeirra sem hafa verið í atvinnurekstri. Miðað við t.d. löggjöf Norðurlandanna um svipað efni er þetta kannski það atriði sem er ein mesta spurningin varðandi lög um greiðsluaðlögun, hversu víðtækt við eigum að hafa það og hversu langt við eigum að láta það ná varðandi aðila sem hafa verið í atvinnurekstri. Ég hefði talið að við ættum að hafa heimild til þess að leita greiðsluaðlögunar sem opnasta þannig að hún tæki til fólks sem hefði verið í atvinnurekstri. Ég tek þar af leiðandi undir þau sjónarmið sem hv. þm. Atli Gíslason setti fram, að hún nái til aðila í búrekstri og ég tel að hún eigi tvímælalaust og skilyrðislaust að ná til — þ.e. að möguleikinn sé fyrir hendi og eigi að vera opinn gagnvart öllum þeim sem hafa verið í atvinnurekstri. Þá er ég að tala um þá sem hafa rekið einstaklingsfyrirtæki eða smærri fyrirtæki og þá þarf það að liggja fyrir hvernig við skilgreinum einstaklingsfyrirtæki og smærri fyrirtæki í lögum eins og þessum. Hægt væri að hugsa sé að það gæti miðast við fyrirtæki þar sem eigandi og fjölskylda hans starfa og þá miðað við ákveðinn fjölda starfsmanna, starfsmenn væru t.d. færri en tíu, eða ákveðna heildarveltu. Það eru kannski þær helstu viðmiðanir sem ber að hafa í huga.

Ég tel mjög mikilvægt varðandi þessa löggjöf að ákvæði séu sem víðtækust um að heimila aðilum að leita eftir þessari úrlausn. Það er síðan spurning, sem er að öðru leyti meira lagatæknilegs eðlis, hvernig útfærslan er. En ég tek undir og legg sérstaka áherslu á það með hv. þm. Atla Gíslasyni að við eigum ekki að eyða tímanum í að agnúast í ræðustól á Alþingi um ákveðið orðalag eða um það hver eigi höfundarrétt. Sjálfur hefði ég talið heppilegast að fá sérstaka löggjöf um greiðsluaðlögun en það er annað mál og ég get alveg sætt mig við og mun styðja það að þetta mál fái skjóta afgreiðslu í allsherjarnefnd.