136. löggjafarþing — 75. fundur,  5. feb. 2009.

gjaldþrotaskipti o.fl.

281. mál
[12:49]
Horfa

Pétur H. Blöndal (S) (andsvar):

Herra forseti. Ég er sammála hv. þingmanni um að Alþingi á ekki að vera í einhverjum sandkassaslag. Þess vegna finnst mér undarlegt þegar fyrir liggur tilbúið frumvarp frá fyrrverandi ríkisstjórn að það skuli ekki vera tekið upp og samþykkt eins og það lá fyrir. Því hafði verið dreift á þinginu. Það var dálítið undarlegt. Það eru pínulitlar breytingar, tvær efnislegar breytingar, og síðan orðalagið, greiðsluaðlögun eða skuldaaðlögun. Að öðru leyti er þetta sama frumvarpið. Mér finnst þetta bera ákveðinn vott um sandkassaleik, að verið sé að flytja stjórnarfrumvarp þegar fyrir liggur annað frumvarp nákvæmlega eins.

Varðandi atvinnureksturinn þá skildi ég hv. þingmann þannig að hann vildi víkka út fyrir bændur. Ég vil víkka út fyrir alla. (JM: Ég vil …) Þá hef ég bara misskilið þetta og þá erum við sammála í því að skora á hv. allsherjarnefnd sem mun fjalla um málið að hún skoði nákvæmlega hvort ekki er hægt að víkka þetta út fyrir fólk sem hefur verið í atvinnurekstri. Ég held enn fremur að við hv. þingmaður séum sammála um það að við viljum báðir stuðla að því að fólk taki áhættu í atvinnurekstri. Ef menn verða síðan undir þá er það ekki endilega þeirra sök, þeir urðu bara undir í samkeppni. Það er ekki endilega saknæmt. En mér finnst eðlilegt að tekið sé á þeim málum. Svo er annað mál ef menn eru að kaupa bíl eða eitthvað slíkt, það er allt annars eðlis.