136. löggjafarþing — 75. fundur,  5. feb. 2009.

gjaldþrotaskipti o.fl.

281. mál
[13:51]
Horfa

Ragnheiður Ríkharðsdóttir (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Þau þrjú frumvörp sem við ræðum hér miða öll að því að koma til móts við þá sem eiga í greiðsluerfiðleikum. Söguskýring hv. þm. Marðar Árnasonar, sem má kalla frá fortíð til framtíðar, hafði í sjálfu sér ekkert hingað inn í þingsal að gera vegna þess að þingmenn hljóta að lesa og kynna sér mál án þess að um þau sé rætt á þann hátt sem hér var gert.

Mig langar að spyrja, með leyfi forseta, hv. þm. Mörð Árnason: Hver er skoðun hans á frumvarpi sem 25 manna þingflokkur sjálfstæðismanna leggur hér fram? Hvað er í því frumvarpi sem hann getur ekki sætt sig við? Og hvað er í því frumvarpi sem ekki kemur heimilunum í landinu til góða?