136. löggjafarþing — 75. fundur,  5. feb. 2009.

gjaldþrotaskipti o.fl.

281. mál
[13:54]
Horfa

Ragnheiður Ríkharðsdóttir (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Að sjálfsögðu skiptir sagan máli. Það var enginn að andmæla því. Ég er þó ekki viss um að sú saga sem hv. þm. Mörður Árnason flutti, bæði í ræðu sinni og eins í því andsvari sem hann veitti, stuðli að framgangi þess máls sem við ræðum hér.

Ég spurði hann um skoðun hans á frumvarpi sem 25 manna þingflokkur sjálfstæðismanna leggur fram. Hann gaf lítið fyrir það og eyðir orðum í hnútukast við þingmenn sem ekki hafa tekið til máls undir ræðu hans. Hæstv. dómsmálaráðherra hefur engan sérstakan hefðarrétt á að flytja mál. Ég hefði talið að það ætti ekki að skipta máli hverjir það væru sem flyttu hér frumvörp ef þau væru til bóta. En það virðist einfaldlega skipta máli fyrir hv. þm. Mörð Árnason hverjir það eru sem flytja frumvarpið.

Nú þegar Sjálfstæðisflokkurinn flytur frumvarp um skuldaaðlögun þá rekur hann söguna frá 1991 og finnur Sjálfstæðisflokknum allt það til foráttu sem hann mögulega getur hvað það varðar að hann leggur nú fram frumvarp. Það er í hæsta máta óeðlilegt að mínu mati en afar skiljanlegt af hálfu hv. þm. Marðar Árnasonar sem sjaldan eða aldrei leggur eitthvað málefnalegt til umræðunnar.