136. löggjafarþing — 75. fundur,  5. feb. 2009.

gjaldþrotaskipti o.fl.

281. mál
[14:10]
Horfa

Álfheiður Ingadóttir (Vg):

Frú forseti. Ég vil byrja á því að óska nýjum hæstv. dómsmálaráðherra til hamingju með jómfrúrræðuna á hinu háa Alþingi og ég vil lýsa sérstakri ánægju minni með það að fyrsta mál nýrrar ríkisstjórnar skuli koma strax á öðrum degi þingsins inn með þeim hætti sem það gerir vegna þess að hér er vissulega um mjög brýnt mál að ræða.

Eins og fram kemur í verkefnaskrá nýrrar ríkisstjórnar þá er hún fyrst og fremst mynduð til að hrinda í framkvæmd brýnum og mikilvægum aðgerðum við erfiðar aðstæður, einkum í þágu heimila og atvinnulífs en einnig er í inngangi að verkefnaskránni fjallað um endurreisn bankakerfisins, endurbætur í stjórnsýslu og aðgerðir í þágu aukins lýðræðis, opins og heiðarlegs samfélags.

Ríkisstjórnin hefur ákveðið að leggja mikla áherslu á aðstoð við heimili og fjölskyldur í landinu og IV. kafli verkefnaskrárinnar fjallar einmitt um það. Þar kemur fram að ríkisstjórnin muni grípa til markvissra aðgerða til að bregðast við fjárhagslegum vanda heimilanna í landinu í virku samráði við hagsmunaaðila. Þar kemur einnig fram að nú í febrúar muni ríkisstjórnin leggja fram frumvörp um greiðsluaðlögun, greiðslujöfnun gengistryggðra lána og frestun nauðungaruppboða vegna íbúðarhúsnæðis í allt að 6 mánuði á meðan reynt er að tryggja búsetuöryggi til frambúðar. Enn fremur að gjaldþrotalögum verði breytt með þeim hætti að staða skuldara verði bætt, húsnæðislán gömlu viðskiptabankanna færð til Íbúðalánasjóðs og að fyrir lok mars verði lögð fram langtímaáætlun um hvernig skuldavanda heimilanna verði frekar mætt. Þeirri langtímaáætlun mun fylgja mat á stöðu mismunandi tekju- og aldurshópa, tillögur um fjármögnun, mat á kostnaði ríkissjóðs og áhrifum á fjármálastöðugleika. Loks segir í kaflanum um aðgerðir í þágu heimilanna að sett verði lög um séreignarsparnað sem veita sjóðfélögum heimild til fyrirframgreiðslu úr séreignarsjóðum til að mæta brýnum fjárhagsvanda.

Eins og menn sjá af þessum lestri er töluvert verk fram undan og þess vegna mjög ánægjulegt að strax á öðrum degi þingsins skuli vera komið inn með þetta mikilvæga mál sem er mikil réttarbót og gerir almennum launamönnum, þeim sem ekki stunda atvinnurekstur eða hafa hætt því nýlega, mögulegt að endurskipuleggja fjármál sín á sama grunni og félög og fyrirtæki og menn í rekstri, þ.e. á grundvelli gjaldþrotalaganna með greiðslustöðvun og nauðasamningum. Ferlið sem er lýst í frumvarpinu er hins vegar nokkrum mun einfaldara og kostnaði haldið þar hóflegum, þó þannig að ríkið taki hann á sig en ekki skuldarinn.

Ég verð að segja, frú forseti, að bankahrunið hefur ekki aðeins bitnað á þeim sem eru í atvinnurekstri. Fjöldi heimila venjulegs launafólks glímir nú við óheyrilegar skuldir sem vaxa og vaxa og þrátt fyrir að heimilin legðu allar tekjur sínar í vexti og afborganir dygði það oft ekki til. Þetta er eins og að ausa bát með botnlausri fötu, eins og maður nokkur orðaði það við mig á dögunum. Þessi hópur vex og því er spáð í greinargerð með frumvarpinu að gjaldþrotum muni fjölga verulega umfram það sem sést í tölunum sem frumvarpinu fylgja og ná aðeins til loka septembermánaðar.

Með stjórnarfrumvarpinu eru sköpuð skilyrði til að þessir skuldarar geti óskað nauðasamninga til greiðsluaðlögunar og gert er ráð fyrir að það verði gert m.a. með því að efla Ráðgjafarstofu um fjármál heimilanna sem einnig krefst útgjalda úr ríkissjóði. Ég verð að taka undir það sem hv. þm. Atli Gíslason sagði fyrr í dag að innihaldið skiptir öllu máli en ekki umbúðirnar. Ég hefði talið að hv. þm. Björn Bjarnason hefði átt að fagna þessari framgöngu ríkisstjórnarinnar miðað við orð hans að öðru leyti en því miður bar lítið á því. Ríkisstjórnin leggur áherslu á að þingið lögfesti sem fyrst þessi úrræði, sem flestir þeir sem hér hafa talað virðast sammála um að þurfi að lögfesta.

Þegar við skoðum þau þrjú frumvörp sem hér liggja fyrir er greinilegt að frumvarp ríkisstjórnarinnar er víðtækast. Bæði er gildissviðið útvíkkað hvað varðar þá sem aðild eiga að úrræðinu, greiðsluaðlögun á fyrst og fremst að vera úrræði fyrir almenna launþega en auk þess er gert ráð fyrir því að skuldari geti fengið greiðsluaðlögun enda þótt hann hafi stundað atvinnurekstur og borið ótakmarkaða ábyrgð á atvinnustarfsemi síðustu þrjú ár, hvort sem hann hefur lagt stund á hana einn síns liðs eða í félagi við aðra. Skilyrði er að atvinnurekstri hafi verið hætt og þær skuldir sem stafa frá atvinnurekstrinum séu tiltölulega lítill hluti af heildarskuldum hans. Þessi viðbót þýðir í rauninni að iðnaðarmenn, sölumenn og verktakar almennt, einhver nefndi leigubílstjóra, geta fallið undir þetta úrræði en svo er ekki í því frumvarpi sem þingflokkur Sjálfstæðisflokksins hefur lagt fram þannig að frumvarp ríkisstjórnarinnar er víðtækara að þessu leyti.

Það er einnig víðtækara að því leytinu til að í frumvarpinu er gert ráð fyrir því í bráðabirgðaákvæði að unnt verði að gera breytingar á skilmálum krafna sem eru óbeint í eigu ríkissjóðs, þ.e. í eigu Íbúðalánasjóðs eða fjármálafyrirtækja í eigu ríkisins, og tryggðar með veði í íbúðarhúsnæði hér á landi sem ætlað er til eigin nota skuldara.

Ég get ekki tekið undir það sem hv. þm. Björn Bjarnason sagði áðan að óþarfi væri að taka þetta fram vegna þess að hér er um að ræða skýrt frávik frá meginreglu í 28. gr. gjaldþrotalaganna og þótt Íbúðalánasjóður kunni að hafa heimild til að breyta reglum sem þessum virðist mér augljóst að bankarnir hafa það ekki. Þetta úrræði sem er að finna í stjórnarfrumvarpinu er því að mínu mati mjög nauðsynlegt og rennir stoðum undir það sem ég sagði áðan að af þessum þremur frumvörpum sem hér liggja fyrir er frumvarp ríkisstjórnarinnar víðtækast.

Öll munu frumvörpin þrjú væntanlega ganga til allsherjarnefndar og ég á ekki von á öðru en að hún vinni málið hratt og vel. Ég hef ekki heyrt mikla andstöðu í umræðum í dag og treysti því að í allsherjarnefnd muni menn sameinast um tilganginn sem er hinn sami í frumvörpunum öllum og er til þess ætlaður að leysa bráðan vanda heimila og fjölskyldna í landinu.

Ég tek undir það sem menn hafa sagt um að beðið hafi verið eftir úrræði sem þessu lengi og ég vil þakka hv. þm. Merði Árnasyni fyrir þá sögulegu upprifjun sem hér fór fram og setur málið í rétt samhengi þegar endirinn er skoðaður og var mjög upplýsandi fyrir mig. Ég hef ekki fylgst með þessu á sama hátt og hv. þingmaður.

Hv. þm. Atli Gíslason spurði í ræðu sinni hvort hægt væri að taka inn í þetta úrræði ákvæði sem tækju sérstaklega til bænda en það er staðreynd að bændur í þessu landi eru afskaplega illa settir og fráfarandi ríkisstjórn skilur þar mjög illa við. Ég vil minna á að bændur eru nú að fara að borga virðisaukaskatt fyrir síðustu sex mánuði og mat margra sem til þekkja er að stór hluti bænda geti alls ekki staðið skil á honum.

Líka er ljóst að vegna svika á búvörusamningnum verður mjög erfitt fyrir bændur að kaupa áburð í vor og ég tek undir það sem hv. þm. Atli Gíslason sagði að mjög gott væri ef hægt væri að athuga hvort fella mætti bændur sérstaklega undir þessi úrræði vegna þess að nú þegar eru 13.000–14.000 manns á atvinnuleysisskrá og engum er greiði gerður með því að fjölga á henni með uppflosnuðum bændum í vor. Grípa þarf til sértækra aðgerða við vanda bænda og ég vænti þess að hv. allsherjarnefnd geti litið til þess að fá viðbætur við frumvarpið. Ef það tekst ekki án þess að tefja málið vonast ég til að hægt verði að grípa til þess að koma með annað frumvarp sem tekur á þessum sérstaka vanda. Því miður hefur orðræðan svolítið verið í fortíðinni en ekki framtíðinni og ég átta mig ekki alveg á afstöðu Sjálfstæðisflokksins til málsins. Ég vona að það sé ekki rétt sem ég heyrði í orðræðu hv. þm. Björns Bjarnasonar um grátt svæði. Ég vona að það þýði ekki að Sjálfstæðisflokkurinn leggist gegn því að sjálfstæðir atvinnurekendur sem gefist hafa upp á rekstri sínum geti notið þeirra úrræða sem að öðru leyti virðist samstaða um að lögfesta.

Ég vil að lokum, frú forseti, ítreka að það er gott að þetta fyrsta frumvarp nýrrar ríkisstjórnar um greiðsluaðlögun er komið fram. Í þingmálaskrá ríkisstjórnarinnar sem dreift var við umræðu um stefnuræðu forsætisráðherra í gærkvöldi kemur fram að á næstu dögum er von á frumvarpi til laga um breytingu á lögum um gjaldþrotaskipti til að efla réttarstöðu skuldara og einnig breyting á lögum um aðför, um að lengja aðfarartíma úr 15 dögum í 45, og frumvarp til laga um breytingu á lögum um nauðungarsölu, þ.e. frestun á nauðungarsölu fasteigna um sex mánuði. Öll þessi frumvörp sem væntanleg munu innan tíðar frá hæstv. dóms- og kirkjumálaráðherra eru til þess fallin að framkvæma það sem er efst á verkefnaskrá ríkisstjórnarinnar, að bæta stöðu heimilanna í landinu sem allra fyrst.