136. löggjafarþing — 75. fundur,  5. feb. 2009.

gjaldþrotaskipti o.fl.

281. mál
[14:23]
Horfa

Pétur H. Blöndal (S) (andsvar):

Frú forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir ágæta ræðu. Hún byrjaði mjög almennt og talaði um fjárhagsvanda heimilanna o.s.frv. og þá vil ég spyrja hana hvort hún sé ekki hlynnt því að reist verði álver á Bakka til að minnka atvinnuleysið og bæta stöðu heimilanna. Eins spyr ég líka hvort ekki sé þá rétt að stunda hvalveiðar þar sem þær auka líka atvinnu.

Svo vil ég spyrja hana hvort það sé ekki alveg á tæru að hún muni standa með mér gegn samningum um Icesave sem veldur gífurlegum skuldaklafa á börnin okkar en mér sýnist að hennar flokkur sé genginn í björg með Samfylkingunni í því að þóknast Evrópusambandinu.

Eins og hún segir kom strax á öðrum degi fram frumvarp, en áður var komið fram frumvarp. Af hverju í ósköpunum samþykktu menn það bara ekki? Ég er meðflutningsmaður á því, 1. flutningsmaður er Björn Bjarnason. Af hverju í ósköpunum samþykktu menn það bara ekki og gerðu þessar smávægilegu breytingar í nefndinni? Ég bara spyr. Það hefði flýtt mjög fyrir málinu. Þá hefði verið hægt að lögfesta það sem fyrst.

Hún nefndi sérstaklega bændur sem eiga að falla undir þennan atvinnurekstur: Ákvæðið eins og það stendur núna er nánast tómt mengi. Þeir sem þekkja stöðu skuldara vita að þeir sem hafa verið í atvinnurekstri eru yfirleitt með miklar skuldir frá þeim atvinnurekstri ef þeir eru í vandræðum. Ég spyr hvort það sé ekki rétt, hvort hún taki ekki undir með hv. þm. Jóni Magnússyni og mér, að það þurfi að víkka þetta frekar en ella þannig að þetta nái til þeirra sem skulda mikið vegna atvinnureksturs, t.d. bænda og þeirra sjálfstæðu atvinnurekenda sem hafa verið að baksa í atvinnurekstri. Þá vil ég kannski undanskilja útrásarvíkingana.