136. löggjafarþing — 75. fundur,  5. feb. 2009.

gjaldþrotaskipti o.fl.

281. mál
[14:28]
Horfa

Pétur H. Blöndal (S) (andsvar):

Frú forseti. Mér þykir miður þegar hv. þingmaður segir mig vera í einhverjum málfundaæfingum eða málfundaræðum. Ég tel mig vera hérna með málefnalegar spurningar, t.d. þá af hverju menn samþykktu ekki bara það frumvarp sem búið var að leggja fram og gerðu á því smávægilegar breytingar sem ég mun fara yfir í ræðu á eftir að eru í rauninni tóm mengi, báðar þær breytingar sem menn gerðu.

Svo spurði ég hana að því, sem hún svaraði ekki, hvort hún féllist á það sem hv. þm. Jón Magnússon ræddi og ég líka í andsvari við hann um að hugsanlega þyrfti að víkka þetta út þannig að bændur og fleiri féllu undir þetta. En allt þetta verður væntanlega rætt í nefndinni og ég held að það sé mjög brýnt að koma þessu fram.

Varðandi álver á Bakka og hvalveiðar og Icesave, þetta eru allt saman mál sem varða þjóðina mjög miklu og af því að hv. þingmaður byrjaði að tala um fjárhagsvanda heimilanna svona almennt leyfði ég mér að fara inn á það líka, en í aukasetningu.