136. löggjafarþing — 75. fundur,  5. feb. 2009.

gjaldþrotaskipti o.fl.

281. mál
[14:29]
Horfa

Álfheiður Ingadóttir (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Ég ítreka að það stjórnarfrumvarp sem hér liggur fyrir er víðtækara en það frumvarp sem hv. þingflokkur Sjálfstæðisflokksins leggur hér fram. Það er óumdeilt að í því eru a.m.k. tvö atriði sem bæði víkka gildissviðið hvað tekur til einstaklinganna sem geta fallið undir þetta úrræði og eins til skuldanna sem geta fallið undir þetta ákvæði.

Mig langar til að svara hv. þingmanni því sem hann nefndi áðan um tvennt, annars vegar hvað varðar atvinnureksturinn og hins vegar hvað varðar bændur. Það er þannig að fasteignaveðskuldir, yfirdrættir og gengistryggð lán eru að sliga heimili, bæði þeirra sem stunda atvinnurekstur og hinna. Það þarf ekki endilega að vera, hv. þingmaður, að stærsti hluti skuldanna á heimilum atvinnurekenda eða fyrrverandi atvinnurekenda sem hafa þurft að gefast upp á rekstri sínum eða hafa hætt honum sé til kominn vegna atvinnurekstrarins. Það vita allir sem eru með gengistryggð lán á húsunum sínum, íbúðarhúsnæðinu sem telst ekki atvinnurekstur, og á verðbótaþættinum að það er engin leið að standa undir þessu eins og aðstæðum er núna háttað í þjóðfélaginu.

Mig langar aðeins til að nefna varðandi bændur að þeir eru líka með þessi erfiðu fasteignalán, bæði á íbúðarhúsnæðinu sínu, á atvinnuhúsnæðinu, og svo hafa þeir einnig þurft að taka lán til kaupa á búmarki. Vandinn þar er ærinn. Og já, ég er búin að lýsa mig samþykka því að það verði reynt að útvíkka þetta þannig að það taki sérstaklega á þeim vanda ef það er hægt án þess að málið tefjist, ella að þá komi fram nýtt mál sem taki sérstaklega á því.