136. löggjafarþing — 75. fundur,  5. feb. 2009.

gjaldþrotaskipti o.fl.

281. mál
[14:31]
Horfa

Flm. (Björn Bjarnason) (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég vil bregðast við því sem spurt var um, hvort ég væri á móti því að þetta mál næði fram að ganga í einhverri breyttri mynd. Ég sagði hér í morgun að það væri alveg ljóst að það frumvarp sem við sjálfstæðismenn flytjum er grunnskjalið í þessu máli. Ég hefði talið eðlilegt að þær umræður sem hér fara fram færu fram í þingnefnd því að nú þegar hefur komið í ljós í umræðunni að þingmenn eru með yfirboð varðandi það hvernig þeir sjá að þetta eigi að vera í endanlegri mynd. Ég tel að menn eigi að líta til þess sem réttarfarsnefnd segir í gögnum sínum sem þingmenn geta fengið aðgang að. Engar rannsóknir hafa farið fram hér á þessum málum þannig að menn geti fullyrt nákvæmlega hvað skiptir máli við lagabreytingar til að ná fram þeim tilgangi sem ætlað er. Það er mjög varasamt og ég vara við því að menn teygi sig of langt inn á eitthvert grátt svæði og hefji svo yfirboð um það hvort þessi hópurinn eða hinn eigi að falla undir þessi lagaákvæði. Hér er verið að fjalla um grunnþátt í okkar viðskiptakerfi sem snertir ákveðið öryggi í viðskiptum. Og það að menn standi hér og segi að þessi hópur eigi að koma og það eigi að gera þetta eða hitt gefur bara ranga mynd nema menn hafi einhverjar rannsóknir og einhverjar athuganir á bak við sig. Það er það sem réttarfarsnefnd gengur út á þegar hún sendir okkur þetta álit, að slíkar rannsóknir hafi ekki farið fram. Það liggur ekki fyrir hér nákvæmlega hvernig menn geta tekið á þessu til að bregðast sem best við fyrir einstaka hópa. Því er mjög varasamt fyrir þingmenn að standa hér og vera með yfirboð af þessu tagi og gagnrýna okkur fyrir að við viljum ekki opna eitthvað sem enginn veit í raun og veru hvað þýðir þegar upp er staðið að lokum.