136. löggjafarþing — 75. fundur,  5. feb. 2009.

gjaldþrotaskipti o.fl.

281. mál
[14:50]
Horfa

Flm. (Björn Bjarnason) (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég vil mótmæla þessum málflutningi, hann er algjörlega rakalaus. Það er alveg fráleitt að leggja mál þannig upp að ef þingmenn stjórnarandstöðunnar flytja frumvörp sem ekki ná fram að ganga í þinginu sé það á ábyrgð ráðherra í ríkisstjórn að sjá til þess að þau frumvörp nái fram að ganga — það sýnir í hvaða þröng þingmenn eru komnir þegar þeir standa frammi fyrir því að við sjálfstæðismenn tókum frumkvæðið í málinu.

Það vorum við sem komum þessu máli í þann búning að það er þinghæft. Þáverandi hv. þm. Jóhanna Sigurðardóttir, nú hæstv. forsætisráðherra, hafði enga burði til að flytja frumvarpið þannig að það væri tækt hér í þinginu. Það komst aldrei í gegn af því að þingmenn sáu strax að frumvarpið var þannig úr garði gert að ef það yrði að lögum yrðu stórvandræði. Þá snúa menn sér til viðskiptaráðherra og hann beðinn um að flytja frumvarpið og fyrir misskilning tekur hann það að sér og ræður ekki heldur við það. Það er ekki fyrr en það er sent til okkar og við leitum til réttarfarsnefndar að málið kemst loksins í þær hendur að hægt er að taka á því.

Að kenna mér um þetta er alveg út í hött og sýnir þau rökþrot sem blasa við þegar menn standa hér og ræða þetta mál. Menn komast ekki undan því að það erum við sjálfstæðismenn sem flytjum þetta mál hér inni í þingið í þeim búningi að hægt sé að afgreiða það. Það hefur enginn haft getu til þess til þessa. (Gripið fram í.)

Við kunnum að setja það í þann farveg að efnisleg niðurstaða fékkst sem allir eru sáttir við. En þá eru settar á langar ræður um það að þetta sé allt mér að kenna af því að þetta hafi ekki orðið til miklu fyrr. (Gripið fram í.) Þetta er ótrúlegt. Ræða eftir ræðu — og svo segja þeir að málið verði að afgreiða strax. Svo standa þeir hér, stjórnarsinnar sjálfir, og flytja ræðu eftir ræðu til að tefja fyrir framgangi málsins.