136. löggjafarþing — 75. fundur,  5. feb. 2009.

gjaldþrotaskipti o.fl.

281. mál
[14:55]
Horfa

Flm. (Björn Bjarnason) (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég er ekki að eigna Sjálfstæðisflokknum réttarfarsnefnd. Ég er hins vegar að eigna mér sem sjálfstæðismanni það að ég tók þær ákvarðanir sem dómsmálaráðherra til þess að þetta mál kæmist í þann búning sem það er núna. Án minna afskipta hefði það ekki orðið, það er ekkert flóknara en það. Hvort ég geri það árinu fyrr eða síðar er ekki aðalatriðið heldur að málið sé komið í þennan búning og að búið sé að koma því hingað inn í þingið og að almenn samstaða virðist vera um það. Þá má ég standa hér upp hvað eftir annað til að verja mig fyrir gagnrýni út af því að þetta mál sé komið í þennan farveg. Ég er mjög stoltur af því að mér tókst að koma því úr því rugli öllu sem það var í þegar það kom í mínar hendur og ég er stoltur af því að mér tókst að koma í veg fyrir að frumvarpið sem viðskiptaráðuneytið var með í höndunum yrði lagt hér fram á þingi. Ég er stoltur af því að hafa fengið réttarfarsnefnd til að koma með athugasemdir sínar og segja að það frumvarp væri algjörlega óboðlegt og ætti ekkert erindi inn í þingið. Þetta eru mín verk í þessu, að beina þessu í þennan farveg og sjá til þess að það kæmist í þann búning að hægt sé að taka það hér fyrir.