136. löggjafarþing — 75. fundur,  5. feb. 2009.

gjaldþrotaskipti o.fl.

281. mál
[14:58]
Horfa

Ármann Kr. Ólafsson (S):

Hæstv. forseti. Ég vil byrja á því að óska hæstv. dómsmálaráðherra til hamingju með embættið og sína jómfrúrræðu og sérstaklega vil ég óska henni til hamingju með það að hafa tekið mál sem þingflokkur Sjálfstæðisflokksins lagði hér fram og gera það að máli ríkisstjórnarinnar. Mér er til efs að það hafi áður verið gert, að flytja tvö mál nánast alveg nákvæmlega eins þar sem meginbreytingin er að annars vegar er um að ræða frumvarp til laga um greiðsluaðlögun, sem er nýja heitið í staðinn fyrir skuldaaðlögun.

Ég tala hér í fyrsta sinn eftir að þessi nýja ríkisstjórn tók við og óska henni alls velfarnaðar. Það er auðvitað sama hvar í flokki við stöndum, í því ástandi sem við stöndum frammi fyrir núna er númer eitt, tvö og þrjú að hugsa um hag Íslendinga, hugsa um hag þjóðarinnar. Ég tek sérstaklega undir orð hv. þm. Birkis Jóns Jónssonar um að Framsóknarflokkurinn, eins og hann sagði hér í ræðu í gærkvöldi, muni styðja framgang góðra mála hvaðan sem þau koma. Það er auðvitað sérstaklega athyglisvert í ljósi þess að hér er um minnihlutastjórn að ræða sem er við völd í landinu í dag. Auðvitað geta aðrir þingflokkar komið fram með góð mál og komið þeim í gegnum þingið án þess að þessi minnihlutastjórn komi þar nokkuð að og flokkar hennar.

Ég hlakka þá til þess að Framsóknarflokkurinn leggi hér fram góð mál því að það er alveg ljóst að það er þingmeirihluti án minnihlutastjórnarinnar til að koma þeim í gegn.

Hv. þm. Árni Páll Árnason fór mikinn hér í ræðustól áðan varðandi skuldaaðlögunina þar sem hann sakaði Björn Bjarnason, fyrrverandi hæstv. dómsmálaráðherra, fyrir að hafa dregið lappirnar í málinu. Það er svolítið sérstakt í ljósi þess að málið var fryst í þingflokki Samfylkingarinnar. Þetta mál var afgreitt úr þingflokki Sjálfstæðisflokksins í síðustu ríkisstjórn en var fryst í þingflokki Samfylkingarinnar. Svo mikið var þeim í mun að koma þessu máli áfram og svo bera þeir fyrir sig einhverjar smávægilegar breytingar núna, breytingar sem alveg klárlega hefðu getað átt sér stað í allsherjarnefnd og í þeirri umræðu sem þar hefði farið fram og þeirri umræðu sem hefði farið fram í þinginu ef Samfylkingin hefði ekki dregið lappirnar. Þá hefði verið hægt að koma með þessar smávægilegu breytingar sem hafa komið fram í þessu frumvarpi, eins og t.d. að breyta nafninu úr „skuldaaðlögun“ í „greiðsluaðlögun“. Það hefði sennilega mátt breyta því í meðförum þingsins.

Hv. þm. Árni Páll Árnason sagði líka að honum væri til efs að nokkurt annað mál hefði verið skoðað jafn vel í kerfinu eins og þetta tiltekna mál. Samt sem áður þurfti Samfylkingin að tefja málið þrátt fyrir að þeir ágætu þingmenn Samfylkingarinnar hafi fylgst með málinu. Þótt þeir hafi ýtt á málið eins og hann segir og lýsti hér svo ótrúlega fjálglega sáu þeir sér ekki fært að samþykkja málið. Þetta er dæmigert fyrir það sem gerðist hér á síðustu dögum síðustu ríkisstjórnar, það var allt gert til að tefja málið.

Það sem bíður þessarar nýju ríkisstjórnar er að leysa mjög mörg viðamikil verkefni en hún lætur líka alltaf að því liggja að hér hafi ekkert verið gert. Það merkilega er að margt af því sem menn vildu gera var stoppað hjá Samfylkingunni og tafðist og svo þegar farið er að taka hlutina saman kemur í ljós að 100 mál, 100 atriði, voru afgreidd á 100 dögum. Það sér auðvitað hver maður að hendur voru látnar standa fram úr ermum þó að Samfylkingin hafi á margan hátt lagt stein í götu stjórnar Sjálfstæðisflokksins í því samstarfi sem þá var.

Ég verð að segja eins og er að auðvitað er engin spurning um að heimilin í landinu standa frammi fyrir miklum erfiðleikum. Það er líka rétt sem komið hefur fram, staða skuldara hefur að mörgu leyti verið þannig að réttur lánardrottna, svo maður noti nú það tækniorð, er mjög sterkur. Það sem við lærum af þessu bankahruni er að hér kom heilmikið fjármagn, allt of mikið fjármagn, inn í hagkerfið hjá okkur og var mjög hart gengið fram í því, svo ótrúlegt sem það kann að hljóma, að lána það fjármagn. Ég held að til lengri tíma litið muni þetta frumvarp sem hér liggur fyrir, ef og þegar það verður að lögum, einmitt koma í veg fyrir slíka hegðun, þ.e. að ef staða skuldarans er styrkt og staða þess sem lánar er ekki jafnskýr og rétturinn ekki eins mikill og hefur verið þurfi menn einfaldlega að hugsa sig betur um áður en þeir fara að lána fjármagn, áður en þeir fara að sprauta fjármagni út til almennings.

Að því leytinu til er þetta ekki bara eitt og sér gott mál afmarkað eins og það liggur hér fyrir heldur jafnframt í víðara samhengi. Þetta er líka mjög gott mál af því að það er eitt af því sem verður að liggja fyrir þegar við endurreisum bankakerfið. Það sé ekki þannig að öll ábyrgðin liggi hjá þeim sem tekur lánið heldur hafi þeir líka ábyrgð sem veita lánið. Þetta er eitt af því sem við þurfum líka að skoða. Í þessari endurreisn er oft talað um að sá sem lánar hafi bæði belti og axlabönd og það hefur gjarnan verið svo og ekki bara í því að ábyrgðarhlutinn liggur nánast eingöngu hjá þeim sem tekur lánið heldur líka vegna þess að tryggingin í gegnum vísitöluna er gríðarlega mikil. Þess vegna er þá líka spurning í þessu samhengi varðandi beltið og axlaböndin hvort ábyrgðarhluti þess sem veitir lánin mundi ekki aukast, hvort hann þyrfti ekki að hafa meiri áhættu af því að lána. Ef við breyttum úr þessum hefðbundnu vísitölulánum í vaxtalán þar sem það er ekki með jafnskýrum hætti sem vaxtaprósentan breytist með vísitölu verður hagur allra þeirra, bæði lántakenda og lánveitenda, miklu meiri í því að halda hlutunum eða efnahagslífinu í föstum skorðum og koma í veg fyrir að verðbólgan fari á fulla ferð. Þrátt fyrir að við séum með breytilega vexti er ég alveg sannfærður um að það eitt að vaxtaprósentan hækkar dragi úr vilja fólks til að taka lán. Vextirnir sem við borgum af lánunum í dag, þessum vísitölutryggðu lánum, eru alltaf tiltölulega lág vaxtaprósenta en duldu vextirnir eru í gegnum vísitöluna. Þess vegna virkar vaxtaprósenta miklu lægri en hin raunverulega vaxtatala er þegar búið er að reikna vísitöluna inn í. Það er allt önnur tilfinning að taka lán þar sem um er að ræða 5% eða 15% vexti.

Eitt af því sem einnig var gert, sem ég fagna sérstaklega og er í tengslum við þetta að auka ábyrgð allra aðila sem eru í því að taka og veita lán, er að sérstakt átak hefur verið gert í því að fræða fólk og hjálpa því við að koma sér út úr vandræðum sínum með því að taka til í lánasafninu sínu. Ég held að það sé mjög mikilvægt að bankarnir, hvort sem það eru hinir nýju ríkisreknu bankar eða sparisjóðirnir, horfi sérstaklega til þess að gefa fólki það tækifæri eða svigrúm sem nauðsynlegt er til að taka til í lánasafninu sínu og vissulega er þetta frumvarp hér ákveðinn þrýstingur á bankakerfið að gera það.

Hæstv. forseti. Ég fagna því að þetta frumvarp hafi komið hér fram svo snemma eftir að hinn nýi minni hluti tók við — þá er ég náttúrlega að tala um frumvarp til laga sem snýr að skuldaaðlögun og var lagt hér fram af fyrrverandi hæstv. dómsmálaráðherra Birni Bjarnasyni. Og í ljósi þess að minnihlutastjórnin gat ekki unað Sjálfstæðisflokknum að hafa lagt það fram eftir að Samfylkingin hafði legið á þessu frumvarpi, ekki komið því út úr þingflokknum hjá sér, held ég að ég fagni því þá bara að þeir skyldu leysa það með þessum hætti, þ.e. að taka frumvarp hv. þm. Björns Bjarnasonar og skrifa það nákvæmlega eins með tveimur eða kannski þremur breytingum.