136. löggjafarþing — 75. fundur,  5. feb. 2009.

gjaldþrotaskipti o.fl.

281. mál
[15:48]
Horfa

dómsmálaráðherra (Ragna Árnadóttir):

Virðulegi forseti. Til umræðu hafa verið þessi þrjú mál sem snúa öll að því úrræði sem nefnt hefur verið greiðsluaðlögun í tveimur þeirra og skuldaaðlögun í einu. Umræða um efnislega þætti málsins hefur verið mjög gagnleg. Þótt sátt virðist ríkja um marga þætti málsins eru aðrir þættir sem mér virðist ástæða til að allsherjarnefnd skoði nánar. Einkum tel ég brýnt að nefndin ræði áhrif ákvæðis til bráðabirgða um veðskuldir sem var skoðað í dómsmálaráðuneytinu og talið nauðsynlegt að setja í frumvarpið þannig að greiðsluaðlögun gæti tekið til veðskulda en ekki einungis samningskrafna. Það var ein af meginbreytingunum sem gerðar voru á frumvarpinu frá fyrri drögum.

Einnig tel ég að skoða þurfi vel þessa víkkun sem lögð er til á gildissviði úrræðis um greiðsluaðlögun. Sú víkkun á gildissviði sem lögð er til í frumvarpinu, að þetta eigi ekki einungis við um einstaklinga sem ekki hafa stundað atvinnurekstur, getur líka átt við í fleiri tilvikum. Mér sýnist að skoða þurfi tvo þætti í því sambandi. Er það óljóst orðað eða hefur það óljós áhrif? Ég hefði talið að svo væri ekki en eftir að hafa heyrt umræðurnar finnst mér til bóta að allsherjarnefnd skoði það sérstaklega. Ég hef áður lýst þeirri skoðun minni í ræðu og riti að fastanefndir þingsins hafi mikið vald og ég tel að þetta sé eitt af þessum atriðum sem þarf að skoða.

Þá finnst mér einnig að allsherjarnefnd þurfi sérstaklega, ef henni sýnist svo, að taka á því atriði að ummæli séu felld út úr greinargerð í drögum að frumvarpi. Ég er ekki viss um hvaða þýðingu það hefur nákvæmlega við lagatúlkun en til að eyða öllum vafa yrði þá tekið á því í nefndaráliti, þ.e. ef nefndinni sýnist svo. Rætt hefur verið um hvort þetta eigi að vera sérstök lög eða hluti af gjaldþrotalögum. Ég sé augljósan kost við það að hafa þetta hluta af gjaldþrotalögum því að þarna er skýr tenging við nauðasamningsferlið og úrræðið sett fram sem hluti af því. Síðan á eftir að koma í ljós hversu mörgum hentar þetta úrræði og hversu oft það verður notað en það er alveg ljóst að þetta gagnast ekki einstaklingum nema þeir séu komnir í verulega greiðsluerfiðleika, séu ógreiðslufærir.

Ég læt þetta nægja í bili. Áðan var óskað eftir afstöðu minni til mála sem ekki heyra undir mitt málefnasvið og tel ég ekki tilhlýðilegt að gera grein fyrir því hér enda er málefnaábyrgð mín í ríkisstjórninni skýr: Ég ber ábyrgð á málefnasviði dóms- og kirkjumála.