136. löggjafarþing — 76. fundur,  6. feb. 2009.

heilbrigðismál.

[10:34]
Horfa

Þuríður Backman (Vg):

Hæstv. forseti. Ég þakka hv. þm. Kristni H. Gunnarssyni fyrir að minnast á þennan atburð sem nú á að eiga sér stað, þ.e. verið er að loka dagdeild Fjórðungssjúkrahússins á Akureyri þessa dagana. Hvort það er í dag eða í næstu viku skiptir ekki máli, þessi ákvörðun hefur verið tekin. Ég verð að segja að forstöðumönnum á Fjórðungssjúkrahúsinu á Akureyri er nokkur vorkunn eins og öðrum opinberum stofnunum sem er gert að spara, Fjórðungssjúkrahúsinu á Akureyri 250–300 millj. kr., en ég tel að þarna sé farin mjög vanhugsuð leið. Það er ráðist á garðinn þar sem hann er hvað lægstur, þar sem sjúklingarnir eru hvað viðkvæmastir, þar sem farið er alveg þvert á það sem landlæknir hefur leiðbeint um, þ.e. að í þeim niðurskurði sem heilbrigðisstofnanir standa frammi fyrir eigi að verja þá í lengstu lög og standa vörð um geðheilbrigðisþjónustuna. Það verður mikið álag á þessa þjónustu á næstunni og við þurfum frekar að efla hana, bæði á þessu sviði og hvað varðar unglingana og forvarnir, og dagdeildin eins og hún hefur verið rekin norður á Akureyri hefur verið til fyrirmyndar. Það þarf að leita samstarfs við fleiri aðila, það þarf að leita samstarfs við Akureyrarbæ og það verður að halda þessari dagdeild opinni. Það er ekkert verklag að loka henni um stuttan tíma og missa þar með hæft starfsfólk og þá þjálfun (Forseti hringir.) og færni sem hefur skapast á þessari deild. Það er enginn sparnaður.