136. löggjafarþing — 76. fundur,  6. feb. 2009.

heilbrigðismál -- stefna í virkjunarmálum.

[10:48]
Horfa

Þuríður Backman (Vg):

Hæstv. forseti. Forstöðumönnum hverrar stofnunar er vandi á höndum að fara að fyrirmælum um niðurskurð. Ég tel að við verðum að líta heildstætt á niðurskurðinn sem á að fara í, þ.e. ef sparað er á einum stað að kostnaðurinn lendi ekki á öðrum.

Við skipulagsbreytinguna á geðheilbrigðisþjónustunni, heildarþjónustunni, á Fjórðungssjúkrahúsinu á Akureyri tel ég að sú ákvörðun að loka dagdeildinni hafi verið fljótræðisleg og gerð án samráðs við Akureyrarbæ sem mun þurfa að taka á sig aukna félagsþjónustu vegna þessa. Það liggur í augum uppi. Eins var það að segja upp fólki með þetta stuttum fyrirvara ekki sá sparnaður sem áætlaður var, því margir hafa allt að því árs uppsagnarfrest og þar af leiðandi laun. Þess vegna tapast mestu verðmætin, starfsfólkið sem vinnur á dagdeildinni. Ekki er hægt að loka deild og ætla svo bara að halda áfram.

Starfsemi dagdeildarinnar, hvernig svo sem henni verður fyrirkomið, er mikilvægur þáttur í því að halda fólki gangandi og styðja það í því að taka þátt í atvinnulífinu og ganga í skóla. Að fólk þurfi ekki að liggja á sjúkrahúsi eða sækja göngudeild.

Þess vegna tel ég að líka eigi að skoða hvort ekki sé hægt að fá annað einbýlishús eða hús úti í bæ ef þetta hús gagnast ekki. Að hugmyndin um að samreka dagdeild og göngudeild á sama stað verði endurskoðuð. Hægt er að hafa sömu stjórn, (Forseti hringir.) en eigum við ekki að færa geðheilbrigðisþjónustuna sem mest (Forseti hringir.) út í samfélagið, út í þjóðfélagið og reka hana þar?