136. löggjafarþing — 76. fundur,  6. feb. 2009.

Seðlabanki Íslands.

280. mál
[11:13]
Horfa

Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir (S) (andsvar):

Herra forseti. Þegar maður lítur yfir ríkisstjórnina og reynslu hennar í þinginu sé ég að ég er rétt að byrja hér og er vart búin að slíta barnsskónum. Ég man þá tíð fyrir tæpum tíu árum er ég kom í þingið nýkomin úr fæðingarorlofi og hlustaði einmitt á rökræður hæstv. forsætisráðherra, þáverandi hv. þingmanns, við þáverandi hæstv. forsætisráðherra Davíð Oddsson, og það var greinilegt að þar var um nokkuð mikið vinarþel að ræða. Þau rökræddu eitt og annað en síðan fór maður niður í gömlu og góðu kaffistofuna í þinginu og sá að það var greinilega hlýr strengur á milli þeirra tveggja þó að hlýjan sé greinilega horfin og strengurinn eitthvað trosnaður.

Af hverju er ég að rifja þetta upp? Ég geri það vegna þess að ég fór yfir m.a. ræðu þáverandi hv. þm. Jóhönnu Sigurðardóttur um sjálfstæði Seðlabankans. Það kom margt merkilegt fram í þeirri ræðu, margt sem hægt er að taka undir en þó eitt og annað sem maður hnýtur um í dag og veltir fyrir sér hvort skoðanir hæstv. forsætisráðherra séu breyttar. Með leyfi forseta, segir Jóhanna Sigurðardóttir, þáverandi hv. þingmaður, 2. desember 1999:

„Síðan ætti sjálfstæði Seðlabankans að vera með þeim hætti að það ætti ekki að vera ráðherra sem skipar bankastjóra. Ég held að það séu líka úreltir stjórnunarhættir að ráðherra geri það. Ég tel að það ætti að vera bankaráðið sem skipi bankastjóra og væri fróðlegt að fá álit hæstv. forsætisráðherra á því.“

Þetta sagði hæstv. forsætisráðherra fyrir tæpum tíu árum. Þá sagði hæstv. forsætisráðherra að það væru úreltir stjórnunarhættir að forsætisráðherra skipaði seðlabankastjóra, vildi að bankaráðið gerði það. Hvað hefur breyst tæpum tíu árum síðar? Nú er þetta frumvarp hæstv. forsætisráðherra. Hvaða álit hefur hæstv. forsætisráðherra á því? Telur forsætisráðherra það enn vera þannig að bankaráðið eigi að skipa seðlabankastjóra eða eru einhver önnur sjónarmið uppi hvað þetta varðar?