136. löggjafarþing — 76. fundur,  6. feb. 2009.

Seðlabanki Íslands.

280. mál
[11:19]
Horfa

forsætisráðherra (Jóhanna Sigurðardóttir) (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ef ég skil hv. þingmann rétt þá er hv. þingmaður að spyrja hvort leita eigi til erlendra sérfræðinga um umsögn um þetta frumvarp. Ég tel alls óþarft að gera það vegna þess að hér er raunverulega farið í málin með sama hætti og hefur viðgengist í öðrum löndum. Ég tel því að það sé óþarfi að leita út fyrir landsteinana um umsögn um þetta frumvarp.

Ég bið hv. þingmann að skoða hvernig skipan þessara mála er í öðrum löndum og ég hygg að hv. þingmaður komist þá að því að það er með svipuðum hætti og við leggjum þetta mál upp hér í dag, með því að endurskipuleggja Seðlabanka Íslands.

Að líta til fortíðarinnar í þessu máli er auðvitað gagnlegt en við eigum að líta fram á veginn. Það eru breyttir tímar í íslensku samfélagi sem kalla á gjörbreytta skipun þessara mála sem og ýmissa annarra í (Forseti hringir.) samfélaginu.