136. löggjafarþing — 76. fundur,  6. feb. 2009.

Seðlabanki Íslands.

280. mál
[11:47]
Horfa

Árni Páll Árnason (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Hv. þingmaður lýsti stjórnsýslu forsætisráðherra í þessu máli sem dæmalausri í ræðu sinni og hv. þm. Pétur Blöndal rakti áðan að forsætisráðherra hefði sett fram hótun í bréfi því sem sent var bankastjórum Seðlabankans.

Þegar lýst er fyrirætlunum um að breyta stofnun eða leggja niður störf er verið að lýsa vilja ríkisstjórnar á hverjum tíma. Það má kalla það hótun. En þá hlýtur maður að spyrja á móti: Var þá hv. þingmaður, hæstv. þáverandi forsætisráðherra Geir H. Haarde, að hóta yfirstjórn Seðlabankans þegar hann lýsti meintum vilja sjálfstæðismanna til þess að breyta yfirstjórn Seðlabanka Íslands í tengslum við lagabreytingar?

Hér er gerð tillaga um lagabreytingu sem felur í sér að breytt verði yfirstjórn bankans. Sú tillaga er auðvitað viðbragð við þeirri stöðu að sú yfirstjórn bankans sem nú situr hefur ekki sýnt þá reisn og ekki risið undir því trausti sem eðlilegt hlýtur að vera að gera til bankastjórnar að hún virði hagsmuni þjóðarinnar meira en eigin stundarhagsmuni, sína prívathagsmuni. Og við þær aðstæður þegar yfirstjórn er bankans ófær um að taka hagsmuni þjóðarinnar fram yfir sína eigin þarf auðvitað að breyta lögum til þess að gera ákveðnar skipulagsbreytingar til þess að koma á yfirstjórn sem nýtur trausts í efnahagsumhverfinu.