136. löggjafarþing — 76. fundur,  6. feb. 2009.

Seðlabanki Íslands.

280. mál
[11:49]
Horfa

Birgir Ármannsson (S) (andsvar):

Hæstv. forseti. Fyrst vil ég segja að í ræðu hv. þm. Árna Páls Árnasonar komu fram miklar ávirðingar um þá þrjá menn sem gegna nú störfum seðlabankastjóra í landinu, Davíð Oddsson, Ingimund Friðriksson og Eirík Guðnason. Ég ætla ekki að svara fyrir þeirra hönd. En hins vegar finnast mér þessar ávirðingar vera þess eðlis að þær hljóti að kalla á frekari umfjöllun. Þær hljóta að kalla á frekari rökstuðning. Menn geta ekki slengt svona fram. Þótt menn séu í pólitískum hráskinnaleik geta menn ekki slengt svona dylgjum fram án þess að rökstyðja þær ítarlega.

Varðandi hvernig að þessu máli er staðið vil ég hins vegar segja að það er töluvert ólíkt að gera eins og hæstv. fyrrverandi forsætisráðherra Geir Haarde gerði, að reifa hugmyndir um skipulagsbreytingar eða að senda mönnum bréf af því tagi sem hæstv. forsætisráðherra gerði meira að segja áður en búið var að leggja fram frumvarp hér á Alþingi um þessar skipulagsbreytingar, áður en það frumvarp hafði verið efnislega kynnt. Þessu er bara slengt fram, augljóslega í hótunartilgangi.