136. löggjafarþing — 76. fundur,  6. feb. 2009.

Seðlabanki Íslands.

280. mál
[11:51]
Horfa

Árni Páll Árnason (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Hv. þm. Geir H. Haarde lýsti sem forsætisráðherra vilja síns flokks og ríkisstjórnar sinnar til þess að setja af núverandi yfirstjórn Seðlabanka Íslands. Það getur vel verið að hægt sé að túlka það sem ávirðingar í garð þeirra manna sem þar sitja. Einhverja ástæðu hafði hann alla vega til þess að bjóða upp á þá lausn. Einhverja ástæðu hafði hann greinilega til þess að telja að rétt væri að skipta um yfirstjórnina og koma á faglegri yfirstjórn bankans.

Hæstv. forsætisráðherra hefur ekki gert neitt annað en að tjá bréflega áhuga og fyrirætlan ríkisstjórnarinnar um að breyta lögum og leggja niður tiltekin störf. Það er almenn kurteisi. Í því felst engin hótun og í því felst engin misbeiting valds, hvað þá fráleit stjórnsýsla.

En viðbrögð sjálfstæðismanna hljóta auðvitað vekja upp efasemdir um hvort þeir hafi yfir höfuð nokkurn tíma meint nokkuð með því síðtilbúna orðagjálfri þeirra (Forseti hringir.) kom fram, að þeir væru tilbúnir til að gera breytingar í yfirstjórn Seðlabankans.