136. löggjafarþing — 76. fundur,  6. feb. 2009.

Seðlabanki Íslands.

280. mál
[11:57]
Horfa

Björgvin G. Sigurðsson (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Þegar fyrrverandi stjórn Fjármálaeftirlits sagði af sér á dögunum í kjölfar þess að ég sagði af mér embætti viðskiptaráðherra sneri það ekki að því að þar hefði verið á ferðinni óvandvirkt fólk sem hefði framið afglöp í starfi. Þar var fyrirtaks fólk, afbragðs fólk sem hafði unnið starf sitt af kostgæfni.

Það eru hins vegar uppi þær aðstæður í samfélaginu eftir bankafallið í haust að traust það sem fólkið í landinu bar til stjórnvalda og lykilstofnana í samfélaginu, rofnaði algerlega. Mesta og stærsta verkefni okkar alþingismanna í dag er að endurheimta það traust og það verður að gera þrátt fyrir einstakar persónur í lykilstöðum hvort sem það er í Seðlabanka, einstökum ráðuneytum eða annars staðar. Það verður að líta fram hjá því hvort um er að ræða fyrirferðarmiklar persónur á einstökum valdastólum. Við verðum að kosta til öllu því sem tækt er til að endurheimta þetta traust. Nú eru góð ráð dýr. Og þess vegna spyr ég hv. þingmann aftur: Hvað leggur hann til annað en að tafsa og tefja málið hér áfram? (Forseti hringir.)