136. löggjafarþing — 76. fundur,  6. feb. 2009.

Seðlabanki Íslands.

280. mál
[11:59]
Horfa

Steinunn Valdís Óskarsdóttir (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég vil segja að mér fannst ræða hv. þm. Birgis Ármannssonar fyrr í dag býsna merkileg. Ég hugsaði með mér þar sem ég sat í sætinu mínu: Hefur hv. þingmaður ekki áttað sig á því að það hrundi hér heilt fjármálakerfi yfir hausinn á íslensku þjóðinni?

Síðan standa menn í ræðustóli á Alþingi og tala um að nú þurfi að skoða, skoða, spá og spekúlera, hugsa sig um og ég segi: Tími spekúlasjóna, hugmynda, hugsana er liðinn. Sjálfstæðismenn misstu af því tækifæri. (Gripið fram í: Það er ekki rétt.) Þeir misstu af því tækifæri og ég vek athygli á því að það var Samfylkingin í ríkisstjórn sem bókaði ákveðna hluti sem lutu að Seðlabanka Íslands. Og það var Samfylkingin í ríkisstjórn sem hefur krafist um margra mánaða skeið að gerðar verði breytingar á yfirstjórn Seðlabankans.

Svo kemur Sjálfstæðisflokkurinn hér upp í dag og segir: Höldum áfram að spá og spekúlera og skoða hlutina. Tími ákvarðana er runninn upp og ég held að sjálfstæðismenn ættu að sjá að þeir mundu gera þjóðinni mikinn greiða og sjálfum sér líka með því að samþykkja þetta frumvarp.