136. löggjafarþing — 76. fundur,  6. feb. 2009.

Seðlabanki Íslands.

280. mál
[12:20]
Horfa

Árni Þór Sigurðsson (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Ég fagna þeirri yfirlýsingu hv. þm. Ólafar Nordal að Sjálfstæðisflokkurinn muni ekki verða flækjufótur í þessu máli. Ég fagna því sérstaklega vegna þess að við getum þá væntanlega gert ráð fyrir því að málið fái góða og tiltölulega skjóta afgreiðslu (ÓN: Vandaða meðferð.) — og vandaða að sjálfsögðu — á vettvangi þeirrar nefndar sem fær málið til umræðu, en ekki verði nein ástæðulaus töf, ef svo má segja, á afgreiðslu þess. Mér finnst mikilvægt að það komi fram.

Varðandi Seðlabankann að öðru leyti þá tek ég undir það með hv. þingmanni að hér er um mjög mikilvæga stofnun að ræða í samfélagi okkar. Uppi hafa verið hugmyndir um að sameina Fjármálaeftirlitið og Seðlabankann. Vel kann að vera að það verði niðurstaðan til lengri tíma litið en í augnablikinu er mikilvægt að endurvekja traustið á Seðlabankanum. Að mínu mati liggur á því eða hafa þingmenn Sjálfstæðisflokksins ekki heyrt og hlustað á raddir (Forseti hringir.) fólksins hér undanfarnar vikur og mánuði?