136. löggjafarþing — 76. fundur,  6. feb. 2009.

Seðlabanki Íslands.

280. mál
[12:22]
Horfa

Pétur H. Blöndal (S) (andsvar):

Herra forseti. Hv. þm. Árni Þór Sigurðsson segir að raddir fólksins krefjist ýmislegs, t.d. gagnsæis og nýrra persóna í stjórn landsins. Nú vill svo til að sá sem flytur þetta frumvarp, hæstv. forsætisráðherra, er sá þingmaður sem er með langsamlega mestu starfsreynslu á þingi, 30 ár, og fékk verðlaun fyrir það um daginn, og gagnsæið er þannig að það er ekki einu sinni látið uppi hverjir sömdu frumvarpið. Það ber enginn ábyrgð á þessu, og í frumvarpinu er ekki orð um útlönd.

Mig langar að spyrja hv. þingmann um hið makalausa bréf sem hæstv. forsætisráðherra sendi áður en Alþingi kom saman. Hæstv. forsætisráðherra sendir bréf til bankastjórnar Seðlabankans og hv. þingmaður sagði að það væri eðlilegt. Er eðlilegt að senda opinberum starfsmönnum bréf og segja við þá að þeir eigi að segja af sér vegna þess að fyrirsjáanlegt sé frumvarp sem Alþingi er ekki einu sinni búið að samþykkja?Hvað er þetta annað en hótun, herra forseti?

Mig langar að spyrja hv. þingmann: Er það virkilega þannig að þetta sé eðlilegt bréf? Geta ráðherrar farið að senda opinberum starfsmönnum bréf og segja að fyrirhugað sé að leggja fram frumvarp? Ef það verður samþykkt verður staða þín lögð niður, þú skalt semja við okkur og hætta strax. Eru þetta eðlileg vinnubrögð? Ég hygg að þetta bréf muni í Íslandssögunni verða dæmi um valdníðslu opinberra aðila.