136. löggjafarþing — 76. fundur,  6. feb. 2009.

Seðlabanki Íslands.

280. mál
[12:26]
Horfa

Pétur H. Blöndal (S) (andsvar):

Herra forseti. Auðvitað mun bankahrunið fara í Íslandssöguna. Auðvitað mun öll sú atburðarás fara í Íslandssöguna. En mælst er til þess af erlendum ráðgjöfum að menn troði ekki á mannréttindum á grundvelli þeirrar kreppu sem við höfum lent í. Að ekki sé troðið á mannréttindum og fordæmi gefið fyrir því að hægt sé að troða á mannréttindum vegna þeirrar stöðu sem er.

Í umræddu bréfi er ekki eitt einasta orð um það af hverju menn eiga að hætta, engar ávirðingar, engin ástæða og ekki neitt. Bankastjórum Seðlabankans er bara sagt að hætta af því fyrirséð séu lög sem menn treysta að Alþingi muni samþykkja. Ráðherrann segir það. Mig langar að spyrja hv. þingmann: Lítur hann á þetta sem eðlilegt bréf? Á þetta að vera gangurinn í framkvæmdarvaldinu á Íslandi gagnvart opinberum starfsmönnum?