136. löggjafarþing — 76. fundur,  6. feb. 2009.

Seðlabanki Íslands.

280. mál
[12:27]
Horfa

Árni Þór Sigurðsson (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Það eru nú alls ekki venjulegar eða eðlilegar aðstæður sem við búum við í íslensku samfélagi í dag eða höfum gert að undanförnu. Hæstv. forsætisráðherra hefur sent bankastjórn Seðlabankans bréf. Ég er að vísu ekki með það fyrir framan mig þannig að ég get ekki vitnað í það beint en eftir því sem ég veit um innihald þess þá er þar m.a. vísað til þeirra atburða sem hér hafa orðið á undanförnum vikum og mánuðum, þeirra atburða sem hér hafa orðið í efnahagslífinu og í bankamálum. Þar eru kynnt þau áform ríkisstjórnarinnar að leggja fram frumvarp til breytinga á lögum um Seðlabankann sem m.a. hefur það í för með sér að yfirstjórninni verði breytt. Þeim er gerð (PHB: Engar ávirðingar.) grein fyrir þessum breytingum og gefinn kostur á því að ræða við forsætisráðherra sem fer með málefni Seðlabankans að lögum um það með hvaða hætti málum þeirra verði háttað.

Ég tel að við þessar aðstæður sé ekkert óeðlilegt við að þetta bréf hafi verið sent til þessara (Forseti hringir.) embættismanna. Það þýðir ekki að það hafi eitthvert (Forseti hringir.) sérstakt fordæmisgildi hvenær sem er og hvar sem er, en við þær aðstæður sem nú ríkja tel ég bréfið hafa verið eðlilegt. (PHB: Þetta vildi ég fá fram.)