136. löggjafarþing — 76. fundur,  6. feb. 2009.

Seðlabanki Íslands.

280. mál
[12:28]
Horfa

Birkir Jón Jónsson (F):

Hæstv. forseti. Við ræðum hér um frumvarp til laga um breytingar á lögum um Seðlabanka Íslands sem er umtalað mál. Það er eðlilegt þegar við ræðum um stofnun eins og Seðlabanka Íslands að það krefjist mikillar umræðu jafnt innan þings sem utan. Seðlabanki Íslands er grundvallarstofnun, stofnun sem leikur lykilhlutverk við stjórn efnahagsmála og framfylgir peningamálastefnunni. Þessi mál hafa verið mikið til umræðu á undanförnum mánuðum og sitt sýnist hverjum.

Það er alveg ljóst í mínum huga að Seðlabanka Íslands skortir ákveðið traust á innlendum sem erlendum vettvangi. Ég held að þingmenn geti verið sammála um að við þurfum að auka traustið á Seðlabanka Íslands, Fjármálaeftirlitinu og öðrum stofnunum. Ég lít svo á að það frumvarp sem við ræðum hér sé til þess fallið að skapa þá umgjörð um starfsemi þessarar mikilvægu stofnunar að hún njóti aukins trausts jafnt á innlendum sem erlendum vettvangi. Það hlýtur að vera takmark okkar alþingismanna að styrkja Seðlabanka Íslands, í því eru fólgnir gríðarlegir hagsmunir fyrir íslenskan almenning að okkur takist vel til í þeirri uppbyggingu. Sú stofnun sem við ræðum hér um gegnir lykilhlutverki í endurreisn íslenska hagkerfisins og því hljótum við að vera öll sammála um að við þurfum að styrkja og efla hana.

Frumvarpið sem við ræðum hér er lagt fram af núverandi ríkisstjórn og verður í framhaldinu vísað til efnahags- og skattanefndar. Ég á von á að við munum í þeirri nefnd fara mjög ítarlega yfir þetta mál því að mikilvægt er að það sé faglega unnið að málefnum Seðlabankans á vettvangi þingsins. Ég á líka von á að þetta frumvarp fái þá þinglegu meðferð sem það á skilið á vettvangi nefndarinnar og munum við framsóknarmenn stuðla að því.

Markmið frumvarpsins er eins og ég sagði áðan að auka traust á Seðlabankanum. Í fyrsta lagi er gert ráð fyrir því að fækka seðlabankastjórum úr þremur í einn og að við hverfum frá því áratugalanga viðhorfi stjórnmálamanna að þeir aðilar sem skipa bankastjórn Seðlabankans eigi að vera pólitískt skipaðir.

Það er sérstaklega kveðið á um það í gildandi lögum um Seðlabankann að forsætisráðherra skipi formann bankastjórnar Seðlabankans og aðra bankastjóra til sjö ára í senn og ekki sé skylt að auglýsa þessi embætti laus til umsóknar. Þeir tímar eru liðnir að stjórnmálaflokkarnir skipi sérstaka fulltrúa sína sem bankastjóra við Seðlabanka Íslands. Við framsóknarmenn tölum fyrir því að það sé skipað faglega í þessi embætti á grundvelli auglýsinga og að uppfylltum ákveðnum skilyrðum. Ég trúi því ekki að nokkur stjórnmálaflokkur á Alþingi sé því ósammála.

Við erum kannski ekki svo ósammála þegar við ræðum þetta mál en því miður hefur mér fundist einkenna þessa umræðu að hér séu dregnar fram ákveðnar persónur sem við verðum að taka út fyrir sviga í umræðunni því að við erum að ræða um grundvallarstofnun sem er Seðlabanki Íslands. Það er mikilvægt að sú umræða sem hér fer fram um málefni Seðlabankans sé yfirveguð og án hleypi- og sleggjudóma um einstaklinga sem geta ekki staðið hér fyrir máli sínu. Ég legg mikla áherslu á að við tölum af hógværð um þessi mál og að Alþingi sýni sóma sinn í því að fara mjög ítarlega og vel yfir það frumvarp sem við ræðum hér.

Í öðru lagi er rætt um að sett verði á fót svokölluð peningastefnunefnd. Ég held að nauðsynlegt sé að skipa slíka nefnd til að auka trúverðugleika Seðlabankans. Það er vel til þess fallið en hins vegar er ekki sama hvernig að slíku er staðið. Ég velti því fyrir mér hvort rétt sé að þessi nefnd sé skipuð, ef þetta frumvarp verður að lögum, sérstaklega af bankastjóranum sjálfum, beint eða óbeint, þannig að allir fulltrúar í þessu ráði séu upp á náð hans komnir. Ég velti því fyrir mér hvort einhverjir aðrir eigi mögulega að skipa fulltrúa í þessa peningastefnunefnd þannig að við fáum sem mesta breidd í nefndina. Það getur verið tilhneiging til þess að ríkjandi seðlabankastjóri tilnefni einungis menn sem eru sammála hugmyndafræði hans en eins og við vitum eru margar kenningar og stefnur til í hagfræði. Það getur því verið nauðsynlegt að hafa ákveðna breidd í þessu ráði til að ólík sjónarmið komi fram þegar menn ræða um stefnu í efnahagsmálum. Þetta er eitthvað sem nefndin þarf að fara yfir á sínum vettvangi og við þurfum að fá álit vísra manna úr samfélaginu til að við fáum sem gleggsta mynd af því hvernig peningastefnunefndin muni starfa.

Ég velti líka fyrir mér hæfniskröfunum sem lagðar eru til í frumvarpinu. Á að banna að maður með mikla fjármálareynslu eða með menntun í fjármálalögfræði verði ráðinn til starfa? Að maður með menntun í rekstrarhagfræði eða í fjármálaverkfræði geti orðið seðlabankastjóri? Mér finnst skilyrðin er varða hæfniskröfur dálítið þröng og að við þurfum að skoða þau mál mun betur á vettvangi nefndarinnar.

Eins og ég segi, hæstv. forseti, þá höfum við framsóknarmenn ályktað ítrekað um það, bæði miðstjórn flokksins og flokksþing, að nauðsynlegt sé að breyta um yfirstjórn í Seðlabanka Íslands og við munum ekki hvika frá þeirri stefnu flokksins. Hins vegar er ekki sama hvernig að því verður staðið. Það skiptir líka miklu máli upp á trúverðugleika og traust á nýjum Seðlabanka, ef þetta frumvarp verður að lögum, að við stöndum sómasamlega að því á vettvangi Alþingis og afgreiðum það með myndarlegum hætti eftir yfirlegu og umsagnir utan úr þjóðfélaginu úr efnahags- og skattanefnd. Ég legg áherslu á að Alþingi Íslendinga fari yfir málið af mikilli yfirvegun og að vel ígrunduðu máli því að við erum að ræða hér um undirstöðustofnun í samfélaginu sem er sjálfur Seðlabanki Íslands og við þurfum að vanda þar vel til verka. Við framsóknarmenn leggjum mikla áherslu á það.