136. löggjafarþing — 76. fundur,  6. feb. 2009.

Seðlabanki Íslands.

280. mál
[12:36]
Horfa

Jón Magnússon (Fl):

Virðulegi forseti. Ég flutti í október frumvarp um breytingu á lögum um Seðlabanka Íslands. Það er tekið fyrir sem næsta mál á dagskrá á eftir stjórnarfrumvarpinu, um breytingar á lögum nr. 36/2001, um Seðlabanka Íslands, sem hér er til umræðu. Í gær fóru fram töluverð átök um höfundarrétt á frumvarpi um breytingar á gjaldþrotaskiptalögum. Ég gæti í sjálfu sér varið tíma mínum hér í að fara með sama hætti í þessi mál vegna þess að það frumvarp sem ég lagði fram í október er í efnisatriðum samhljóða frumvarpinu sem ríkisstjórnin leggur nú fram. Um ákveðinn mismun er þó að ræða eins og reyndar kom fram varðandi gjaldþrotaskiptalögin í gær en í öllu eðli og uppbyggingu er um sams konar frumvarp að ræða.

Í sjálfu sér hefði ekki þurft að leggja fram það frumvarp sem við ræðum hér heldur eingöngu afgreiða frumvarp mitt til nefndar og gera þær ráðstafanir og breytingar sem þurft hefði varðandi það að ná fram þeim takmörkuðu breytingum sem liggja fyrir í því frumvarpi sem hér er um að ræða. En munurinn er þó ákveðinn. Hann er sá að ég lagði til að lögð yrði mun meiri áhersla á persónulega ábyrgð þess einstaklings sem gegndi starfi seðlabankastjóra þannig að sá einstaklingur væri til svara en ekki væri um að ræða fjölskipaðan aðila eins og nú er. Ég taldi það skipta gríðarlega miklu máli að hlutirnir væru með svipuðum hætti og t.d. gerist varðandi seðlabankastjóra Bandaríkjanna. Ég notaði hans völd, áhrif og ábyrgð sem ákveðna fyrirmynd í þeirri frumvarpsgerð sem ég lagði fram í október — frumvarpssmiðir ríkisstjórnarinnar hafa síðan séð ástæðu til að taka það upp og koma í þennan búning að breyttu breytanda.

Í annan stað var frumvarp mitt algjörlega málefnalegt hvað það varðar að það hafði með breytingu á þessari ákveðnu peningastofnun að gera. Aðalatriðið var að þar yrði einn faglegur yfirstjórnandi, að ráðinn yrði maður sem hefði víðtæka reynslu og þekkingu án tillits til þess hverjir gegna þeirri stöðu núna. Það hefur ekkert með það að gera. Þetta er eingöngu spurning um að ganga frá ákveðinni stjórnkerfisbreytingu, ákveðnum lagfæringum sem mundu leiða til þess að stjórnin yrði betri og skilvirkari og ábyrgðin væri ljós. Frumvarp mitt hafði ekkert með núverandi seðlabankastjóra að gera. Það hafði í sjálfu sér ekkert með það að gera að hér hafði orðið bankahrun. Það felur eingöngu í sér nauðsynlega lagfæringu þannig að Seðlabankinn verði mun virkari og sjálfstæðari stofnun og yfirstjórnandi hans búi yfir víðtækri fagþekkingu.

Í annan stað var ekki verið að gera sérstakan greinarmun þannig að menn yrðu að hafa lokið einhverri ákveðinni prófgráðu heldur miðað við að menn hefðu það hæfi og þá menntun sem nauðsynleg væri.

Hvað aðra þætti málsins varðar vil ég gera grein fyrir nokkrum atriðum þar sem skilur á milli í þeim frumvörpum sem hér er um að ræða. Ég sé í sjálfu sér ekki ástæðu til að vandræðast mikið með það eða höfundarréttinn. Eins og einu sinni var sagt þá verður maður að vera ánægður með allt það sem er gott hvaðan sem það kemur. En skoða má ræðu mína hér sem framsögu sem ella hefði farið fram um mál sem er á öðrum lið á dagskránni og tel ég eðlilegt að því verði vísað til nefndar án frekari umræðu.

Frumvarpssmiðir ríkisstjórnarinnar hafa ákveðið að breyta nokkrum atriðum sem ég vil hér greina frá. Í fyrsta lagi: Í 3. gr. frumvarpsins legg ég til að seðlabankastjóri sé skipaður til fimm ára í senn, og skipa megi hann tvívegis, en ekki til sjö ára eins og gert er ráð fyrir í frumvarpinu. Ég tel eðlilegra að hafa ekki lengri skipunartíma en fimm ár og er það í samræmi við störf ýmissa annarra embættismanna. Ég tel heppilegra að hafa frumvarpið með þeim hætti að miðað yrði við fimm ára skipun.

Í annan stað segir í frumvarpi ríkisstjórnarinnar að seðlabankastjóri skuli hafa lokið meistaraprófi í hagfræði. Í frumvarpinu sem ég flutti í október, og hér liggur fyrir sem dagskrármál nr. 3, er kveðið á um að hann skuli hafa lokið námi á háskólastigi og búa yfir víðtækri þekkingu á fjármálum og efnahagsmálum sem nýtist í starfinu. Ég tel fráleitt að ætla að binda skipun seðlabankastjóra við ákveðna grein sem kennd er í háskóla. Nýtist ekki viðskiptafræðimenntun? Erum við ekki með alls kyns háskólanám á sviði viðskipta, á sviði stjórnunar í sambandi við fjármál og annað, sem fellur ekki undir hugtakið hagfræði? Af hverju eigum við að þrengja þessi hæfisskilyrði? Er ekki aðalatriðið að til starfa sem seðlabankastjóri veljist einstaklingur sem býr yfir víðtækri og nauðsynlegri þekkingu á fjármálum og efnahagsmálum? Að því leyti tel ég að sú útfærsla sem er frumvarpi mínu sé miklu heppilegri og betri en sú sem valin er af hálfu ríkisstjórnarinnar í frumvarpinu sem hér er til umræðu. Mér finnst nauðsynlegt að gera breytingar á hvað það varðar.

Síðan kemur fyrirbrigði sem heitir peningastefnunefnd sem er nýyrði og ný nefnd sem á að gegna ákveðnu hlutverki samkvæmt frumvarpinu. Mér finnst það veruleg spurning hvort verið sé að fara rétt að hlutunum með því að hafa sérstaka nefnd og búa til að mörgu leyti flókið ákvörðunarferli í málum þar sem eðlilegt er að hafa einfaldara ákvörðunarferli eins og kveðið er á um í frumvarpinu sem ég hef lagt fram um breytingar á lögum um Seðlabanka. Þetta er ein stærsta spurningin í þessu máli, þessi peningastefnunefnd. Ég tel að hún sé ekki nægilega vel hugsuð og mjög mikilvægt sé að setja meiri ábyrgð á yfirstjórnendur bankans en ekki vera að búa til aðila sem ég get ekki séð að nokkur þörf sé á að komi að ákvörðunum miðað við það ákvörðunarferli sem að öðru leyti er í lögum um Seðlabanka Íslands. Mér finnst misráðið að ætla að fara þá leið.

Að öðru leyti er að meginhluta til um að ræða atriði sem varða 6., 7., 8., 9., 10. og 11. gr. Þar er um sömu ákvæði að ræða að undanskildu ákvæði um peningastefnunefnd. Að öðru leyti eru frumvörpin nákvæmlega eins. Það eru nákvæmlega sömu tilvísanir í sömu lagagreinar og þess vegna er mér með öllu óskiljanlegt af hverju sá háttur var hafður á að leggja fram sérstakt stjórnarfrumvarp þegar fyrir lá órætt í þinginu frumvarp sem kvað á um þetta.

Blandast hefur inn í þessar umræður spurningin um núverandi seðlabankastjóra og þá sérstaklega einn seðlabankastjóra. Því hefur iðulega verið hent á lofti að þar fari maður sem ekki hafi nægilegt hæfi menntunarlega séð til þess að gegna því embætti. Það vill nú þannig til að seðlabankastjórarnir eru þrír og þá er spurningin: Af hverju velta menn ekki fyrir sér hæfi hinna tveggja? Hvaða þekkingu hafa þeir? Hvaða háskólagráðu hafa þeir? Eru þeir ekki einmitt með þá háskólagráðu sem kveðið er á um að sá skuli hafa sem hér á að ráða sem næsta seðlabankastjóra? Af hálfu talsmanna ríkisstjórnarinnar í umræðunni hér í dag er alltaf vikið að þessum eina seðlabankastjóra sem er einn af þremur sem ekki hefur próf í hagfræði eða viðskiptafræði. Hvað veldur? Er það þannig að hann einn er í raun stjórnandi þessa banka og hinir hafi ekkert með það að gera? Er það þannig að hann einn hafi tekið ákvarðanir en hinir sérmenntuðu menn á sviði peninga og viðskiptamála hafi hvergi komið nærri?

Mér finnst þessi umræða í sjálfu sér mjög óeðlileg því eðlilegra hefði verið að menn hefðu þá fjallað um þetta í heild sinni. Mér finnst stjórnmálamenn gera lítið úr sjálfum sér þegar þeir fjalla um málið með þessum hætti. Að sjálfsögðu öðlast menn víðtæka reynslu og þekkingu í peninga-, efnahags- og fjármálum með því að gegna ábyrgðarstörfum í stjórnmálum, með því að gegna ráðherrastörfum í viðamiklum ráðuneytum. Ég horfi hér á hv. þm. Valgerði Sverrisdóttur sem gegndi starfi viðskiptaráðherra um langa hríð. Ég efa ekki að hún hafi viðað að sér víðtækri þekkingu á sviði efnahagsmála og öðru sem því fylgir en er þó í sjálfu sér ekki að mæla með því að hún gefi kost á sér í stöðu seðlabankastjóra.

En þannig er það og þannig er litið á það í veröldinni að menn sem lengi hafa verið við stjórnunarstörf í stjórnmálum eru taldir mjög hæfir til að taka að sér ýmis önnur og áhrifamikil störf og stjórnunarstörf á öðrum vettvangi, á sviði einkafyrirtækja og opinberra fyrirtækja. Við megum því ekki gera of mikið úr því að menn hafi ekki aflað sér ákveðinnar háskólamenntunar ef þeir hafa þekkingu og reynslu sem svarar því kalli sem hér er um að ræða. Þetta vildi ég leggja áherslu á.

Mér finnst mjög slæmur hlutur að persónugera nauðsynlega umræðu um breytingar á lögum um Seðlabanka Íslands. Það á ekkert erindi inn í þessa umræðu. Hér er fyrst og fremst verið að tala um það hvort við viljum fara þá leið að velja einn seðlabankastjóra sem er þá ábyrgur eða hafa fjölskipað stjórnvald. Ég vil hafa einn seðlabankastjóra og þess vegna lagði ég fram það frumvarp sem er nr. 3 á dagskrá, sem stjórnarfrumvarpið fer í kjölfarið á, vegna þess að mér finnst nauðsynlegt að einn einstaklingur beri ábyrgð á ákvörðunum. Honum verður þá kennt um ef eitthvað bregst af því að hann bar ábyrgðina. Mér finnst nauðsynlegt að miða við það að það sé ekki einungis ein ákveðin prófgráða í háskóla sem geri það fært að skipa ákveðinn einstakling til þessa starfs heldur sé fyrst og fremst gengið út frá því að viðkomandi hafi sem víðtækasta hæfni og uppfylli menntunarskilyrði til þess að geta gegnt umræddu starfi.

Það er því fráleitt, eins og gert er ráð fyrir í 3. gr. frumvarpsins, að tala um að seðlabankastjóri skuli hafa lokið meistaraprófi í hagfræði. Við erum að þrengja þetta með fráleitum hætti, ég skil ekki hvernig hæstv. ríkisstjórn dettur í hug að leggja það til að engir aðrir komi til greina sem yfirstjórnendur Seðlabankans en þeir sem hafa lokið slíku meistaraprófi. Hvað með þá sem hafa lokið meistaraprófi í öðrum greinum sem snerta fjármál og bankamál og annað í þeim dúr? Af hverju koma þeir ekki til greina? Af hverju getum við ekki skoðað þekkingu og reynslu manna?