136. löggjafarþing — 76. fundur,  6. feb. 2009.

Seðlabanki Íslands.

280. mál
[13:33]
Horfa

Björgvin G. Sigurðsson (Sf):

Virðulegi forseti. Umræðan um þetta mál hefur verið nokkuð fróðleg í morgun. En fyrst skal það segja að það að ná að endurreisa traust á lykilstofnunum okkar, stjórnvöldum og lykilstofnunum samfélagsins, er algjört grundvallaratriði í því risavaxna verkefni sem íslensk stjórnvöld standa frammi fyrir nú og á næstu missirum, þ.e. að vinna landið út úr efnahagslegum neyðaraðstæðum.

Fyrstu skrefin og fyrstu verkin liggja fyrir. Þrenn neyðarlög eru að baki, samkomulag við Alþjóðagjaldeyrissjóðinn og breytt fjárlög, samþykkt 22. desember. Allt þetta lá til grundvallar því að landinu væri komið í var fyrir frekari áföllum svo að við gætum byrjað að byggja upp að nýju, hafið endurreisnarstarfið og byrjað að byggja upp nýtt og betra samfélag á grunni þess sem féll með látum og hávaða í lok september í fyrra.

Þessar bráðaaðgerðir í efnahagsmálum lágu að mestu leyti fyrir rétt fyrir jól. Það var að sjálfsögðu mikið fagnaðarefni að okkur tókst að útvega okkur þau lán sem við þurftum nauðsynlega að fá. Við höfðum lánalínur til draga á ef og þegar við þurfum á fjármununum að halda. Við vorum búin að koma okkur upp verkfærum til að freista þess að styrkja aftur stöðu gjaldmiðilsins sem aftur skiptir langmestu máli til að bæta efnahagslegar forsendur í landinu. Djúp er bankakreppan en dýpri er gjaldmiðilskreppan. Takist okkur að styrkja krónuna áfram, okkur tókst að stöðva fallið og ná henni upp aftur, þá er vel að verki staðið.

En það sem við tók og blasti við okkur eftir áramótin var að þó að þessar neyðarráðstafanir stjórnvalda væru að baki, það var búið að grípa til neyðarúrræða á ýmsum sviðum, þá var algert rof á trausti milli þjóðar og stjórnvalda, milli þjóðarinnar í landinu að stórum hluta. Auðvitað er litróf mannlífsins breytt og ekki hægt að tala fyrir alla en stór hluti af þjóðinni upplifði mikla reiði og mikinn afkomuótta sem er alveg skiljanlegt eftir gríðarlegt vonbrigðahrun nokkrum mánuðum áður. Það blasti við okkur stjórnvöldum í landinu, Alþingi, ríkisstjórn og lykilstofnunum í þessu öllu saman, Seðlabanka, Fjármálaeftirliti og öðrum lykilgrundvallarstofnunum, að okkur hafði mistekist að viðhalda, endurheimta og skapa traust á störfum okkar. Fólk krafðist breytinga með táknrænum hætti, að stjórnvöld og stofnanir sýndu ábyrgð í verki, að endurskoðun færi fram á þeim ramma sem hrundi með efnahagsáfallinu. Sú vinna stendur að sjálfsögðu yfir á mörgum sviðum.

Strax á haustdögum voru fengnir erlendir sérfræðingar til vinna að þessum málum. Mats Josefsson fer hér fyrir sérstakri vinnu um enduruppbyggingu á bankakerfinu. Kaarlo Jännäri fer yfir endurskoðun laga um fjármálamarkaði og svo mætti lengi áfram telja. Margt er í ferlum. Mat á eignum gömlu og nýju bankanna stendur yfir og vinnst vonandi vel á næstu vikum.

En það sem okkur mistókst í algjörum grundvallaratriðum og þar er við okkur öll að sakast, engan einn eða enga tvo, var að halda úti samtali við þjóðina og endurvekja traust á störfum okkar. Traust er forsenda uppbyggingar og endurreisnar á íslensku efnahagslífi, íslensku samfélagi og íslensku þjóðlífi. Traust er forsenda þess að okkur takist að vinna okkur út úr þeim efnahagslegu þrengingum og ágjöfum sem við höfum orðið fyrir. Traust er algjört grundvallaratriði í þessu öllu saman.

Við getum líka tekið praktíkina þar inn. Traust á íslenskum stofnunum og stjórnvöldum skiptir öllu máli þegar kemur að því að útvega lánsfé til uppbyggingarstarfsins, aðgengis að lánskjörum. Þar skipta milljarðatugirnir í hverju prósenti upp og niður. Fagleg stjórnun lykilstofnana skiptir þarna öllu máli. Auðvitað er hún til staðar meira og minna og það er ekki spurning um hver brást og hverjum er um að kenna o.s.frv. Þetta spurning um að til að endurvekja traust þurfum við að endurskoða lagarammann og skipta um fólk í lykilstöðum frá því að áfallið gekk yfir og þar til endurreisnarstarfið hefst nú af fullum krafti eftir áramótin þegar neyðaraðgerðir haustsins eru að baki.

Þetta snýr sem sagt ekki að persónum og leikendum. Þetta snýr að faglegu trausti. Þetta snýr að því að endurskapa trúverðugleika í fjármálakerfinu og lykilstofnunum okkar og það þolir enga bið. Þar eru góð ráð dýr og þar verðum við að hafa snör handtök af því að traust er forsenda uppbyggingar. Svo einfalt er það mál að samkvæmt skoðanakönnunum og viðhorfum svo margra þá eru lykilstofnanir hvað varðar fjármálalegan stöðugleika og fjármálakerfi Íslendinga rúnar trausti. Því miður og það er mjög leitt. Gjaldmiðilskreppan, bankakreppan og þessi áföll hafa einfaldlega getið þetta af sér. Hrikaleg mistök í stefnumótun peninga- og efnahagsmála hér á landi á mörgum undangengnum árum, alveg frá því að bankarnir voru seldir. Á bak við stærð, útrás og umfang bankanna liggur pólitísk hvatning. Það var ekki Fjármálaeftirlitinu eða Seðlabanka að kenna eða það voru ekki þeir sem ákváðu að bankarnir ættu að vera svona stórir eða þeir ættu að tífalda þjóðarframleiðslu af stærð sinni og hér væri stærsta fjármálakerfi í heimi miðað við höfðatölu. Að sjálfsögðu ekki. Á bak við þetta stendur pólitísk stefnumörkun stjórnvalda og ríkisstjórna síðustu 15 ára.

Eftirlitstofnunum voru ekki falin nægileg tæki. Þær hefðu að sjálfsögðu getað haft meiri áhrif á ýmislegt hvað varðar bindiskyldu og ýmislegt annað sem hefði getað dregið úr þessu þannig að Seðlabanki Íslands hefði með trúverðugum hætti getað verið lánveitandi til þrautarvara sem hann var að sjálfsögðu ekki gagnvart þessum ofvöxnu bönkum, hinu hrikalega stóra bankakerfi. En til að auka traust á íslensku efnahagslífi verðum við að skipta um mannskap í mörgum lykilstofnunum og við verðum líka að skipta um ramma.

Þegar ég tók þá ákvörðun að segja af mér embætti viðskiptaráðherra var ég algjörlega sannfærður um að okkur hefði mistekist það sem ég lýsti áðan, að endurvekja traust á stjórnvöldum og stofnunum okkar og við sem þar vorum að vinna yrðum að víkja. Stjórn Fjármálaeftirlitsins og forstjórinn þar er mikið afbragðsfólk. Þeim er ekki um að kenna. En stofnanirnar hafa orðið fyrir þvílíkum álitshnekki út af þessu hrikalega áfalli að það verða einfaldlega að koma til mannaskipti á mörgum stöðum og það verður að koma til endurskoðun á lagarammanum utan um allar þessar stofnanir.

Þess vegna vék stjórn Fjármálaeftirlitsins um leið og ég vék af því við vildum rýma til fyrir öðru fólki sem fékk það verkefni að endurheimta traust á stofnuninni. Þetta er það sem sneri að mér á þeim tíma. Þetta hafði ég á minni hendi að gera. Það var nauðsynlegt að höggva á þann hnút sem myndast hafði og öllum var morgunljóst eftir átökin í samfélaginu á síðustu vikum að okkur hafði mistekist illilega að endurreisa traust á lykilstofnunum samfélagsins og stjórnvöldum sjálfum.

Þetta á við um allar þessar stofnanir. Það er því mikið fagnaðarefni að fram er komið frumvarp til laga um Seðlabanka Íslands þar sem lagður er til grundvallar nýr rammi utan um starfsemi þeirrar stofnunar og fagleg stjórn ráðin að því. Eins og ég nefndi áðan snýr þetta ekki að persónum og leikendum heldur trausti á landinu öllu. Það snýr að brýnustu þjóðarhagsmunum Íslendinga allra.

Það má taka undir ýmsar málefnalegar ábendingar um innihald frumvarpsins enda er þetta 1. umr. Efnahags- og skattanefnd mun fjalla um frumvarpið og þar mun málið verða unnið áfram. Við munum kalla til leiks alla okkar færustu sérfræðinga til að gefa álit á frumvarpinu og að sjálfsögðu munum við betrumbæta og breyta ef þörf er á. Þess vegna er það mjög jákvætt ef fram koma málefnalegar ábendingar á innihald og einstaka þætti frumvarpsins nú og þótt reynt sé að snúa þessu einnig upp í umræðu um nornaveiðar, að þetta sé gjörningur til þess að fara að einum manni, tveimur eða þremur er það að sjálfsögðu ekki þannig.

Ég sagði áðan að vegna ástands í þjóðfélaginu þyrftum við að endurreisa traust á lykilstofnunum okkar og þó að það kosti mannaskipti í brúnni, Fjármálaeftirliti, Seðlabanka og einstökum ráðuneytum þá verður það bara svo að vera. Það þýðir ekki að láta þjóðarhagsmuni gjalda fyrir ótta einstakra stjórnmálamanna við einstaka embættismenn. Það er bara ekki svoleiðis. Það verður að breyta þeim lögum sem þarf að breyta til að endurreisa traust á íslenskum lykilstofnunum. Þannig er þetta bara, þetta snýst ekki um persónur og leikendur heldur verða menn að ganga þar til verka eins og þarf að gera.

Ýmsar málefnalegar ábendingar hafa komið fram um þetta frumvarp til laga frá hæstv. forsætisráðherra um Seðlabanka Íslands og það er mjög jákvætt. Við höfum ágætan tíma í nefndinni af því þetta kemur fram strax í fyrstu viku þingsins eftir að stjórnarskiptin urðu, til að fara yfir þetta mál og við munum hefjast handa við það strax á þriðjudaginn þegar nefndin kemur saman.

En þetta mál og önnur endurskoðunarvinna sem snýr að stofnunum samfélagsins í fjármálamarkaði, lykilstofnanir í allri þessari uppbyggingu, slík mál verða að koma fram sem allra fyrst. Þetta snýst allt um traust og trúverðugleika. Meðan stofnanir okkar og stjórnvöld njóta ekki trausts og trúverðugleika, hvorki innan lands né utan lands mun okkur ganga illa að vinna okkur út úr þeim efnahagslegu neyðaraðstæðum, því efnahagslega hruni sem varð hér á haustdögum og varir enn og við erum rétt að byrja að vinna okkur út úr.

Ég efast reyndar ekkert um að okkur muni ganga ágætlega að vinna okkur út úr því. Ég held að bæði vextir, verðbólga og ýmsar aðrar lykilstærðir í þessu öllu saman muni ganga hratt til betri vegar strax á þessu ári eins og spár og áætlanir gera ráð fyrir. Það er t.d. gert ráð fyrir því að stýrivextir og verðbólga verði hvort tveggja um 6% í árslok, í mánaðarlegri mælingu. Ég held að okkur muni ganga þetta vel. Ég held að okkur muni ganga vel að vinna gegn atvinnuleysinu þótt það verði tímabundið mikið, erfitt og sársaukafullt, hörmuleg staða tímabundið, tel ég samt að okkur muni ganga ágætlega að vinna okkur út úr því. Það er verið að gera marga góða hluti, allt frá álversframkvæmdum í Helguvík til margra annarra jákvæðra uppbyggingaþátta í atvinnulífinu.

En til að allt þetta gangi eftir, til að hratt ferli stýrivaxtalækkana gangi eftir, til að allir þessar efnahagslegu breytur gangi til betri vegar verðum við að endurheimta traustið á milli þjóðar og stjórnvalda. Á milli umheims og Íslands með því að segja með afgerandi hætti að allar okkar lykilstofnanir lúti faglegri stjórn. Við verðum að endurreisa traust á lykilstofnanir. Ef það mistekst verða það dýr mistök. Gríðarlega dýr mistök. Það stendur upp á okkur, alþingismenn, að leiða þetta endurreisnarstarf með lagabótum þar sem það á við.

Lagabætur á lögum um Seðlabanka Íslands skipta þar að sjálfsögðu mjög miklu máli. Þar verður að ganga til verka með yfirveguðum, fumlausum og vandvirknislegum hætti, eins og hæstv. forsætisráðherra gerir hér í dag og okkar ágæta efnahags- og skattanefnd mun gera á næstu dögum. Við munum að sjálfsögðu hlusta þar á öll sjónarmið um þetta mál, með eða á móti og við einstakar breytingar þess. Við vitum alveg að mál taka breytingum og batna. Hér er vettvangur til að koma fram með málefnalegar ábendingar á öllum sviðum. Við munum að sjálfsögðu fara yfir þær. Hér er ekki um að ræða endanlega gerð frumvarpsins.

Nokkur grundvallaratriði hafa staðið mjög í nokkrum talsmönnum Sjálfstæðisflokks, t.d. ákvæði um að skipa fimm manna nefnd sem fer með peningamálastefnuna og útfærslu á henni. Það verður ráðinn einn seðlabankastjóri á faglegum forsendum. Þessar breytingar eru einfaldlega nauðsynlegar og áríðandi og hafa verið til umræðu í samfélaginu í mörg, mörg ár og skipta öllu máli til að okkur takist að endurreisa traustið á stofnanir og stjórnvöld í landinu. Þetta snýr ekki að persónum og leikendum. Þetta snýr að lagarammanum, snýr að trausti og trúverðugleika. Þess vegna hlýtur það að vera Alþingi fagnaðarefni að málið kemur strax fram þannig að okkur gefist rúmur tími og gott svigrúm til að vinna að þessu máli áður en þing fer heim síðar í vetur og við göngum til kosninga í vor.