136. löggjafarþing — 76. fundur,  6. feb. 2009.

Seðlabanki Íslands.

280. mál
[13:50]
Horfa

Björgvin G. Sigurðsson (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég ætla ekki að gera þingheimi það að eltast við útúrsnúningana og skætinginn sem kom fram hjá þessum ágæta þingmanni. Ég sagði aldrei að þetta væri fljótfærnislegt. Ég sagði aldrei að hér væri uppkast. Ég frábið mér svo barnalega útúrsnúninga. Þeir eru leiðinlegir í svo alvarlegri umræðu. Ég nenni hvorki að svara þeim né eltast við þá.

Ég sagði aldrei að viðhorfskannanir eða skoðanakannanir hefðu sýnt að skipti ætti um einn eða neinn. Ég sagði að viðhorfskannanir sýndu eins og samtöl við fólkið í samfélaginu að algjört rof væri í trausti á lykilstofnunum. Ég sagði aldrei að skipta ætti um neinn. Ég bið manninn um að fara með rétt mál.

Hvað varðar hinn efnislega þátt, sem er sjálfsagt að svara, væri gaman að ræða hann hér í dag og í nefndinni á næstunni. Hugmyndir eru um sameiningu Fjármálaeftirlits og Seðlabanka Íslands. Þá nefndi ég, eins og hv. þm. Birgir Ármannsson kom inn á í ræðu sinni í morgun, að ég hefði sagt frá því í Morgunblaðinu á sínum tíma að á því væru bæði kostir og miklir gallar.

Þetta er ein þeirra leiða sem kemur til greina en ég hef alltaf haft á henni mikinn fyrirvara sjálfur og ekki séð kostina við hana. Þegar farið er yfir þróun fyrirkomulags á fjármálaeftirlitum og seðlabankastjórn, en Seðlabankinn er líka fjármálaeftirlit þar sem hann er með lausafjárstýringuna á bönkunum, kemur í ljós að það fyrirkomulag að hafa þetta tvennt í sömu stofnun tíðkast nánast aldrei. Til eru þrjú módel. Það módel sem er hér til staðar er algengt. Ég held að miklu farsælla og vænlegra sé að efla stofnanirnar hvora í sínu lagi, Fjármálaeftirlitið og Seðlabankann.

Ef menn finna einhvern málefnalegan flöt á því að til bóta sé fyrir stofnanirnar báðar og fjármálalífið í landinu að steypa þeim saman þá er það í lagi, en ekki að gera það bara til að breyta án þess að fyrir því liggi málefnaleg rök sem liggja ekki fyrir núna. Rökin fyrir sameiningunni komu aldrei sérstaklega skýrt fram. Ég hef ákveðinn fyrirvara en sjálfsagt er að skoða það ef menn komast að þeirri niðurstöðu að það sé til bóta. En þau rök hafa að mínu mati ekki komið fram.