136. löggjafarþing — 76. fundur,  6. feb. 2009.

Seðlabanki Íslands.

280. mál
[14:17]
Horfa

Mörður Árnason (Sf) (andsvar):

Forseti. Það er kannski ekki mjög hvasst andsvar sem ég ætla að veita hæstv. fjármálaráðherra og ég legg það bara í hans dóm hvort hann vill koma og svara því. En það stafar af þeim orðum sem mér þótti hann segja hér, að þrír af fjórum hefðbundnum flokkum, fyrir stofnun þeirra flokka sem við hæstv. fjármálaráðherra tilheyrum hefðu átt fulltrúa eða sendimenn eða einhvers konar menn í bankastjórn Seðlabankans. Það hljótum við að rifja upp við tveir sem vorum í þessum fjórða flokki sem hæstv. fjármálaráðherra á sennilega við með þessum orðum, nefnilega Alþýðubandalaginu, og ég sé að það færist bros á ýmsa í salnum sem þar voru einnig eða þekkja þar til.

Það var þannig að Guðmundur Hjartarson, hinn ágæti bankastjóri Seðlabankans og mikill áhugamaður og vitmaður um rekstur og þjóðmál, var skipaður bankastjóri, ég skal ekki segja, ég hygg að það hafi verið í vinstri stjórninni 1971–1974 sem hann var skipaður bankastjóri. Ég man skýrt að það var Lúðvík Jósefsson viðskiptaráðherra sem gerði það. Hann var í þessu kerfi sem þá tíðkaðist einhvers konar fulltrúi Lúðvíks og Alþýðubandalagsins í þessari bankastjórn. Það rýrir ekki gildi þess mæta manns eða Lúðvíks viðskiptaráðherra. En í mínu minni stendur það nokkuð glöggt að þetta þótti ákaflega undarleg skipun, að Alþýðubandalagið og ráðherrar þess skyldu leyfa sér að setja mann inn í þessa bankastjórn sem var nánast heilagt vé þeirra flokka þriggja sem höfðu myndað hreiður þarna í þessu stjórnarsetri og öðrum og Lúðvík þurfti svolítið að hvessa sig þegar hann tilkynnti þessa ákvörðun.

Þessir tímar eru vonandi liðnir og sá fjórði flokkur sem hér um ræðir tók (Forseti hringir.) minni þátt en aðrir í þessu en á þó þessa sök, ef sök skyldi kalla.