136. löggjafarþing — 76. fundur,  6. feb. 2009.

Seðlabanki Íslands.

280. mál
[14:19]
Horfa

fjármálaráðherra (Steingrímur J. Sigfússon) (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Hér er allt hárrétt með farið hjá hv. þingmanni og ég játa það alveg fúslega að það munu þá hafa í þessum skilningi fjórir flokkar í sögunni — ég hygg að þeir séu örugglega ekki fleiri — átt á einhverjum tímum fulltrúa sem mátti segja að væru þeirra eða skipuðu þann stól sem þeir hefðu haft ráð á að skipa. En ég má þó segja um leið að þetta er væntanlega undantekningin sem sannar regluna. Ég hygg að þetta sé eini bankastjórinn sem skipaður var úr þessari átt og þeir voru sannanlega aldrei nema frá þremur flokkum í einu.

Svo er auðvitað líka nauðsynlegt að halda því til haga að að sjálfsögðu hafa inn á milli verið faglega ráðnir bankamenn, þ.e. bankamenn sem hafa haft framgang í starfi eins og núverandi bankastjórn ber með sér. Þessu hefur að sjálfsögðu ekki alltaf verið þannig háttað að um einhvers konar hreina flokkspólitíska fulltrúa væri að ræða en mjög oft, einkum á fyrri tíð þegar þetta mátti heita alveg föst regla. Það er því staðreynd að slík er arfleifðin sem við erum að tala um og átti að mínu mati þátt í því að hún var enn það föst í sessi eða enn það mikil seigja í hlutunum að menn lögðu ekki í að klára dæmið og fara alla leið 2001.