136. löggjafarþing — 76. fundur,  6. feb. 2009.

Seðlabanki Íslands.

280. mál
[14:21]
Horfa

Pétur H. Blöndal (S) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hæstv. fjármálaráðherra fyrir ágæta og hófstillta ræðu. Það sem ég ætla að spyrja hann um er ráðning þessa eina seðlabankastjóra sem hann talar um að sé fagleg ráðning á grundvelli auglýsingar. Nú er það svo að forsætisráðherra, sem sagt mjög pólitískur aðili, á að velja þennan mann og eins og ég gat um í andsvari áðan eru hagfræðingar oft og tíðum mjög pólitískir. Verður þetta þá ekki bara mjög pólitísk bankastjórn þrátt fyrir öll faglegheitin?

Ég vil líka minna á að próf úr háskóla er svo sem ágætt, ég tel að svona 5–10 ára gamalt próf sé svo sem í lagi en þegar það er orðið 30–40 ára gamalt fer reynslan og starfsreynslan að skipta miklu meira máli. Það er spurning hvort þessi ofurtrú á einhver próf eigi rétt á sér eða sérstök próf. Ég hef miklar efasemdir um það.

Það sem ég vildi nefna er að hæstv. fjármálaráðherra segir að við eigum að líta á þetta frumvarp eitt sér. En það tengist Fjármálaeftirlitinu, við getum ekki litið á þetta frumvarp eitt sér. Við verðum að taka með í þá stofnun í þjóðfélaginu sem hvaða mesta gagnrýni hefur hlotið og tengist þessari óneitanlega. Ég get því ekki séð hvernig við getum rætt þetta frumvarp án þess að taka inn í myndina hugsanlega að menn mundu vilja sameina Fjármálaeftirlitið og Seðlabankann, eins og fyrrverandi hæstv. ríkisstjórn ætlaði sér að gera og beið eftir tillögum frá finnskum sérfræðingi í þessum málum sem ekkert virðist hafa verið notaður við þessa frumvarpssmíð. Hans er alla vega ekki getið.