136. löggjafarþing — 76. fundur,  6. feb. 2009.

Seðlabanki Íslands.

280. mál
[14:23]
Horfa

fjármálaráðherra (Steingrímur J. Sigfússon) (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Í fyrsta lagi er þetta vel útlistað í umsögn um 3. gr. frumvarpsins. Það er auðvitað ljóst að við ráðningu í slíka stöðu eftir lögbundið auglýsingaferli þá gilda almennar reglur um skipan í embætti hjá hinu opinbera og sá hæfasti skal valinn. Menn eiga ákveðinn rétt ef fram hjá þeim er gengið eins og kunnugt er og þá geta komið við sögu önnur lög, t.d. jafnréttislög o.s.frv. Þá fer þetta inn í hið hefðbundna ferli og er varið af þeim lögum og vinnureglum sem um faglegar ráðningar og vandaðar ráðningar gilda.

Ég er alveg sammála hv. þingmanni um að reynslan er líka mikilvæg enda er gert ráð fyrir henni. Þarna eru hvort tveggja í senn settar menntunarkröfur og reynslukröfur, að menn hafi víðtæka reynslu og þekkingu. Ég held að öllu því sem hv. þm. Pétur Blöndal er að biðja um sé mætt nákvæmlega í því orðalagi sem þarna er.

Það er auðvitað rétt að vel menntaður og reyndur hagfræðingur getur verið pólitískur, það er að sjálfsögðu ekki hægt að banna manninum að hafa skoðanir á pólitík. En það verður þá að minnsta kosti bara einn pólitískur maður þarna en ekki þrír og það má þá kannski nota röksemdafærslu Þórarins Nefjólfssonar sem forðum var, að þeim mun færri sem ljótu tærnar eru þeim mun betra. Þannig afgreiddi hann það mál með fæturna tvo.

Varðandi svo Fjármálaeftirlitið og skipulagið þá breytir þetta að sjálfsögðu engu um það. Það getur komið til skoðunar að sameina Fjármálaeftirlit og Seðlabanka en það verður þá sameinað svona Seðlabanka með svona yfirstjórn, með einum faglegum bankastjóra og peningastefnuráði og verður ein af einingum þess banka og heyrir undir hann. Þannig að þetta hefur ekki á nokkurn hátt truflandi áhrif á það ef menn vilja halda þeirri skoðun áfram og kunni að telja það ráðlegt á síðari stigum, (Forseti hringir.) sem ég get fúslega upplýst að ég hef ekki endanlega mótað mér skoðun um. Það eru sjónarmið bæði (Forseti hringir.) með því og móti.