136. löggjafarþing — 76. fundur,  6. feb. 2009.

Seðlabanki Íslands.

280. mál
[14:26]
Horfa

fjármálaráðherra (Steingrímur J. Sigfússon) (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Mér finnst nú hv. þingmaður ekki leggja rétt út af orðum mínum. Ég var ekki að tala um að þarna yrði einn pólitíkus. Ég var að segja að þó að um faglega ráðinn vel menntaðan og reyndan hagfræðing væri að ræða, þá væri auðvitað ekki hægt að útiloka það að hann hefði pólitískar skoðanir. Við getum ekki bannað honum það. Ég var ekki þar með að segja að ég gengi út frá því að þarna yrði einn pólitíkus í staðinn fyrir þrjá áður. Það er bara útúrsnúningur á orðum mínum. Ég vona svo sannarlega að við komumst í burtu frá þeim tíma og ég held að lögin muni líka gera sitt í þessum efnum og hjálpa okkur til að færa þetta inn í annan farveg þar sem fagleg sjónarmið verða fyrst og fremst ráðandi.

Ég velti því fyrir mér hvað vakir fyrir hv. þingmanni og öðrum þingmönnum Sjálfstæðisflokksins sem hafa viljað lesa inn í þetta alls konar hluti sem ég sé enga ástæðu til að gera. Frumvarpið talar bara fyrir sig sjálft. Það er skýrt, það kveður á um ákveðið skipulag. Síðan auðvitað veldur hver á heldur eins og alltaf hefur gerst. Kannski eiga sjálfstæðismenn svo erfitt með að hugsa (Forseti hringir.) að þarna verði ráðið á venjulegum forsendum án einhverrar pólitískrar afskiptasemi (Forseti hringir.) að þeir ná bara alls ekki utan um að það geti gerst.