136. löggjafarþing — 76. fundur,  6. feb. 2009.

Seðlabanki Íslands.

280. mál
[14:30]
Horfa

fjármálaráðherra (Steingrímur J. Sigfússon) (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Ég veit ekki hvort það má taka það svo að sjálfstæðismenn séu kannski ekki svo ósáttir við málið sjálft og fyrirkomulagið sem þarna er lagt til en finnist undirbúningurinn ekki hafa verið réttur. Sem sagt frumvarpið er gott en undirbúningurinn var ekki réttur. Er þetta kannski hugsunin? Ég átta mig ekki alveg á þessu.

Ég held að það sé algerlega á hreinu að frumvarpið er faglega vel undirbyggt. Þetta er fyrirkomulag sem er mjög algengt. Ég held að það sé líka sniðið að okkar þörfum, t.d. í því tilviki að peningastefnuráðið er ekki stórt, það er ekki viðamikið bákn. Það var rætt á sínum tíma og mönnum fannst kannski dálítið mikið í ráðið að fara að hafa 11 eða 15 manna, eða hvað það nú er, sums staðar er til held ég upp í 18 manna ráð eða batterí af þessu tagi — að í tilviki Íslands í okkar litla seðlabanka og okkar litla hagkerfi mundu menn reyna að leita einfaldari leiða og hafa þetta hóflegt í sniðum, sníða sér stakk eftir vexti og það tel ég að sé gert hér.

Þetta er nákvæmlega sama fyrirmynd og algengast er að rekast á, þ.e. að ráðið eða nefndin sé blanda af sérfræðingum innan bankans sjálfs og einhverjum tilteknum utanaðkomandi aðilum Það er módelið. Ég fullvissa hv. þingmenn um að ef þeir skoða fyrirkomulagið í flestum nálægum löndum eða löndum með svipuðu hagkerfi, t.d. í OECD-löndunum, þá er þetta langalgengasta módelið.

Ég held að það hafi ótvíræða kosti að velja einn faglegan seðlabankastjóra. Það er augljóst mál að þar með er mikið lagt undir. Það ríður alveg gríðarlega á að sá maður sé vandanum vaxinn, sé starfi sínu vaxinn. Enda vita menn hversu mikið kastljós er á seðlabankastjórum, sérstaklega stórþjóðanna, og hversu gríðarlega ábyrgðarmikið hlutverk þeir hafa með höndum. Það er nákvæmlega eins og það er gríðarlega mikilvægt að forsætisráðherra lands eða forseti lands, eða hver það nú er sem fer með slíkt forustuhlutverk á einhverju sviði, sé vandanum vaxinn. Það hefur nú heldur betur alltaf komið í ljós.