136. löggjafarþing — 76. fundur,  6. feb. 2009.

Seðlabanki Íslands.

280. mál
[15:06]
Horfa

Árni Páll Árnason (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Í bréfi hæstv. forsætisráðherra var athygli bankastjóranna vakin á þeirri ætlan ríkisstjórnarinnar að breyta lögum um yfirstjórn Seðlabanka Íslands. Í því samhengi hvatti hæstv. forsætisráðherra bankastjórana til þess — ég man nú ekki orðalagið nákvæmlega — að segja af sér störfum.

Ég hef margsinnis hvatt til þess að þessir menn öxluðu ábyrgð sína og segðu af sér störfum og tel það algerlega með ólíkindum að þeir skuli ekki hafa gert það. Enginn seðlabankastjóri hefði komist upp með það í nágrannalöndum okkar að sitja yfir hruni efnahagslífsins, sitja áfram í starfi, ekki einn einasti.

Ekki búa annarlegar hvatir að baki þessu bréfi forsætisráðherra, ekki frekar en annarlegar hvatir bjuggu að baki yfirlýsingar hv. þm. Geirs H. Haarde. Hann lýsti því yfir þegar hann var enn forsætisráðherra að það væri ætlan og vilji þingflokks Sjálfstæðisflokksins að breyta lögum og skipta um yfirstjórn Seðlabankans í kjölfar þeirrar lagabreytingar. Ég skil ekki hvaða eðlismunur er á þeirri lagabreytingu sem hér er lögð til, að skipta um yfirstjórnina einvörðungu, eða að skipta um yfirstjórnina í samhengi við sameiningu Seðlabanka og Fjármálaeftirlits eins og hv. þm. Geir H. Haarde lagði til. Það er enginn eðlismunur á því. Búa þá annarlegar hvatir að baki því að breyta um yfirstjórn einvörðungu í frumvarpi en engar annarlegar hvatir í því að ætla að breyta um yfirstjórn og sameina tvær stofnanir í öðru frumvarpi? Þarna rekur sig hvað á annars horn.