136. löggjafarþing — 76. fundur,  6. feb. 2009.

Seðlabanki Íslands.

280. mál
[15:10]
Horfa

Sigurður Kári Kristjánsson (S) (andsvar):

Hv. þm. Árni Páll Árnason heldur því fram að þriggja manna stjórn Seðlabankans sé eitthvert séríslenskt fyrirbæri. Ég leyfi mér að draga í efa að svo sé. Ég veit ekki betur en að bankastjórar t.d. þýska seðlabankans séu fimm og þar af þrír lögfræðingar. En það er aukaatriði.

Mér fannst athyglisvert að hlýða á ræðu hv. þingmanns, sem fjallaði ekkert um efni frumvarpsins, það er algerlega óljóst hvaða sjónarmið hann hefur fram að færa um efnisatriði þess. Hann notaði tímann fyrst og fremst til þess að ausa úr skálum reiði sinnar yfir þá sem nú sitja í stjórn Seðlabankans og starfsfólk Seðlabankans, hvernig þeir hefðu haldið á málum og allt sem þeir hefðu gert hefði verið tóm vitleysa frá a til ö. Eflaust er það þannig að það hefði verið mikill búhnykkur fyrir Seðlabanka Íslands að hafa slíkan afburðamann sem hv. þm. Árni Páll Árnason er innan sinna raða meðan erfiðleikarnir dundu yfir íslenskt samfélag. Ég er nú ekki nema viss um að niðurstaðan hefði orðið önnur, enda heyri ég á hv. þingmanni að hann virðist vita allt og skilja allt miklu betur en allir aðrir.

En ég velti fyrir mér, af því að hv. þingmaður fjallaði mikið um peningamálastefnuna, og hversu illa hún hefði reynst okkur Íslendingum, af hverju í ósköpunum ekki er vikið að henni í frumvarpinu? Frumvarpið fjallar einungis um formbreytingu á skipulagi Seðlabanka Íslands en hefur ekkert með peningamálastefnuna að gera, ekki nokkurn hlut, hv. þm. Mörður Árnason, sem er nú mættur hér í salinn til þess að kalla fram í.

Ég hlýt (MÁ: Og yfirstjórn peningamála.) að spyrja hv. þingmann hvort hann telji ekki ástæðu til að fara vel yfir frumvarpið og skoða hvort ástæða sé til að kveða eitthvað á um þá breyttu peningamálastefnu sem hv. þingmaður telur ástæðu til að taka upp hér á landi?