136. löggjafarþing — 76. fundur,  6. feb. 2009.

Seðlabanki Íslands.

280. mál
[15:17]
Horfa

Birgir Ármannsson (S) (andsvar):

Herra forseti. Vegna orða hv. þm. Árna Páls Árnasonar vil ég hafna því að Sjálfstæðisflokkurinn hafi staðið eða standi gegn því að gerðar séu breytingar á skipulagi Seðlabankans eða annarra þeirra eftirlitsstofnana sem fjalla um málefni fjármálamarkaðarins. Ég kom að því í ræðu minni fyrr í dag og get ítrekað það síðar þegar ég hef betri tíma í þessari umræðu að við höfum að sjálfsögðu verið reiðubúin að ræða hvernig breytt umhverfi og hrun bankakerfisins kallar á að við endurskoðum þær stofnanir sem hafa lykilhlutverki að gegna við eftirlit og framkvæmd stefnu að þessu leyti. Þannig að ég hafna þessum ummælum.

Hins vegar kom ég hér upp í andsvar fyrst og fremst til að vekja athygli á því að í málflutningi margra talsmanna ríkisstjórnarinnar í dag, einkum hæstv. forsætisráðherra og nú síðdegis í ræðu hæstv. fjármálaráðherra, var lögð þung áhersla á að um væri að ræða faglegar skipulagsbreytingar. En ræðu hv. þm. Árna Páls Árnasonar var ekki hægt að skilja með öðrum hætti en svo að frumvarpinu væri fyrst og fremst beint að þeim þremur sem sitja nú í bankastjórn Seðlabanka Íslands.