136. löggjafarþing — 76. fundur,  6. feb. 2009.

Seðlabanki Íslands.

280. mál
[15:19]
Horfa

Árni Páll Árnason (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Varðandi fyrstu athugasemd þingmannsins fagna ég því ef Sjálfstæðisflokkurinn er sannarlega tilbúinn að ræða breytingar á yfirstjórn Seðlabankans og lítur svo á að það sé hluti af lausn á efnahagsvanda okkar. En mér finnst Sjálfstæðisflokkurinn vera einum of mikið bundinn í humm og ha og óljósan moðreyk um hvað taka skuli við. Það skortir að sagt sé með skýrum og afgerandi hætti hvað taki við og hvernig og þessi bið hefur tekið allt of langan tíma. (REÁ: Þetta frumvarp tekur ekki á því.)

Íslenskt efnahagslíf þarf á skýrri sýn um endurreisn peningamálastefnunnar að halda. Við búum við óásættanlega hörð gjaldeyrishöft og til að auka tiltrú á gjaldmiðilinn þurfum við sem fyrst að ná tiltrú á framkvæmd peningamálastefnu og stjórn peningamála í landinu. Það má ekki bíða. Við getum einfaldlega ekki beðið von úr viti eftir því. Hér er lögð fram mjög einföld og skynsamleg tillaga til lausnar á því máli. Ég tala ekkert fyrir ríkisstjórnina, hv. þingmaður. Ég tala fyrir sjálfan mig og tjái viðhorf mín. Það er alveg rétt sem fram kom hjá hæstv. ráðherrum fyrr í dag að fagleg rök eru fyrir ákvörðuninni og frumvarpinu og þau eru ljós og skýr.

Í ræðu minni benti ég á verulega ágalla á framkvæmd starfsskyldna af hálfu þeirra sem sitja í bankastjórn Seðlabankans í dag. Ég tel að það sé einfaldlega nokkuð sem óhjákvæmilegt er að ræða í þessu samhengi, vegna þess að viðkomandi einstaklingar hafa kosið að sitja áfram þrátt fyrir ítrekaðar beiðnir um að víkja og vegna þess að ljóst er að óljós skilaboð og misvísandi skilaboð milli þeirra er hluti af þeim vandamálum sem við fáumst við í dag.