136. löggjafarþing — 76. fundur,  6. feb. 2009.

Seðlabanki Íslands.

280. mál
[15:37]
Horfa

Mörður Árnason (Sf) (andsvar):

Forseti. Ég vil þakka hv. þm. Ólöfu Nordal fyrir þessa ágætu ræðu. Hún varði henni mestan part til að spyrja um ýmis smærri atriði og það er sjálfsagt (Gripið fram í.) að forsætisráðherra, flutningsmaður frumvarpsins geri grein fyrir því þó að vísu standi í þingsköpum í 38. gr. að við 1. umr. skuli ræða frumvarpið í heild sinni og í nefnd og 2. umr. einkum um hin smærri atriði málsins. Það sem skiptir máli í 1. umr. og einkum í henni er að í ljós komi sú stefna sem þingmenn og þingflokkar hafa til málsins í heild sinni þannig að almenningur og aðrir flokkar geti áttað sig á því svona nokkurn veginn hvernig landið liggur eins og maður segir, hvort þingmenn eða þingflokkar séu algerlega á móti og þá af hvaða ástæðum eða hvort þeir séu hlynntir málinu og þá á einhverjum tilteknum forsendum með ákveðnum skilyrðum og svo framvegis.

Ég sakna þess í dag — ég hef hlustað á sjálfstæðismenn tala hér fram og til baka — að hvergi hefur komið fram stefna Sjálfstæðisflokksins eða einstakra þingmanna í þessu máli. Þeir hafa talað mikið um greinargerðina og hvað vanti í hana og þeir hafa talað um einstök atriði sem sum eru þannig að um þau má spyrja. Auðvitað má spyrja um þessa tilteknu menntun sem þarna er nefnd og hvort ekki sé til önnur menntun, til dæmis þessi peningaverkfræði sem er nú einn tungubrjóturinn eða einhver önnur menntun sem hliðstæð er í nútímanum. Menn hafa spurt um ýmislegt en hvergi hefur komið fram stefna Sjálfstæðisflokksins í málinu. Styður hann meginatriðin í þessu frumvarpi, frumvarpið í heild sinni, með skilyrðum, á tilteknum forsendum, með einstökum breytingartillögum eða er hann á móti málinu og hvert vill hann þá fara? Eða er það bara status quo ante, allt eins og það var, sem Sjálfstæðisflokkurinn vill í málefnum Seðlabanka Íslands?