136. löggjafarþing — 76. fundur,  6. feb. 2009.

Seðlabanki Íslands.

280. mál
[15:39]
Horfa

Ólöf Nordal (S) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hv. þm. Merði Árnasyni fyrir að hjálpa mér við þessa 1. umr. og hvað eigi að koma fram þar. En ég held nú að þessi smáatriði sem hann telur svo, hvernig eigi að standa að því að reka bankann séu nú ekkert lítil atriði satt að segja. Ég hefði haldið að þessi peningamálastefnunefnd væri einmitt grundvallaratriði í málinu, að það sé grundvallaratriði í málinu hvernig hún eigi að vera. Þess vegna hef ég töluverðan áhuga á því að vita betur hvernig hún er saman sett og hver hugsunin er. Þannig get ég til dæmis miklu betur gert mér grein fyrir því hvort þetta í nákvæmlega þessum búningi henti mínum sjónarmiðum þegar horft er til Seðlabanka Íslands.

En varðandi það að verið sé að kalla eftir stefnu Sjálfstæðisflokksins á þessum vettvangi þá held ég að menn hafi haldið hérna langar ræður í dag um það hvað þeir halda að sé rétt í þessu. Það hefur komið fram af hálfu sjálfstæðismanna að til hefur staðið að gera breytingar á lögum um Seðlabanka þannig að það liggur alveg fyrir að sjálfstæðismenn vilja gera breytingar á lögum um Seðlabanka.

Ég get náttúrlega ekkert úttalað mig um það hér nákvæmlega í hverju sú breyting væri best fólgin. Sannleikurinn er bara sá að við lentum hér í ákveðnum vandræðum með stefnu okkar í þessum málum og menn eru tilbúnir til að skoða það. En ég mun ekki svara þessu að öðru leyti, hv. þingmaður.