136. löggjafarþing — 76. fundur,  6. feb. 2009.

Seðlabanki Íslands.

280. mál
[15:40]
Horfa

Mörður Árnason (Sf) (andsvar):

Forseti. Það eru ákaflega mikilvægar upplýsingar sem hér hafa komið fram hjá hv. þm. Ólöfu Nordal að Sjálfstæðisflokkurinn hefur stefnu í málefnum Seðlabankans. Hann vill nefnilega breyta lögum um Seðlabanka Íslands, sagði hv. þingmaður. (Gripið fram í.) Hv. þingmanni er að vísu ekki ljóst í hverju þær breytingar eigi að felast og öðrum (Gripið fram í.) hv. þingmönnum Sjálfstæðisflokksins sem hér hafa talað er það heldur ekki ljóst því þeir hafa ekki komið fram með neinar slíkar breytingarhugmyndir heldur reynt að flækja og tefja það mál sem hér er uppi þó það njóti stuðnings sennilega meiri hluta landsmanna og felst í því ósköp einfaldlega — af því að hv. þingmaður spurði um það í sinni ræðu, þ.e. um tilgang frumvarpsins — felst í því ósköp einfaldlega að breyta yfirstjórn Seðlabankans á þann hátt í fyrsta lagi að spara þar tvö störf, að breyta þremur mönnum sem þar eru ráðnir til lítilla hluta í einn og í öðru lagi að koma þar á faglegri og ábyrgri og sjálfstæðri yfirstjórn með því að gera hæfniskröfur og gera faglegar kröfur til seðlabankastjórans í stað þess skipulags sem við höfum þekkt hér lengi þar sem einkum gamlir pólitíkusar hafa verið settir í þetta án nokkurs tillits til hæfni eða stefnu þeirra í peningamálum.

Síðan er þetta mál með hina frægu peningastefnunefnd. Það er hugmynd sem ég skal ekki tjá mig mikið um af því að ég hef ekki nein próf í þessari grein. (Gripið fram í.) En ég hef próf í íslensku og mér þykir bara allt í lagi með þetta orð. Það er þrísamsett. Það er sem sé peningastefna. Eftir nokkra áratugi komst ég að því hvað peningastefna væri og hefði kannski átt að gera það fyrr. En núna vita það allir Íslendingar hvað peningastefna er vegna þess að hún brást undir stjórn einmitt þeirra manna — einmitt þeirra þriggja manna og þó einkum formanns þess ráðs sem þeir sitja í — sem fara frá ef þetta frumvarp verður að lögum og helst fyrr.