136. löggjafarþing — 76. fundur,  6. feb. 2009.

Seðlabanki Íslands.

280. mál
[15:45]
Horfa

Ólöf Nordal (S) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég er alveg sammála því sem fram kemur hjá hv. þm. Siv Friðleifsdóttur að hér er full þröng skilgreining á ferðinni og ég held að það sé miklu betra að kveða á um að viðkomandi hafi víðtæka reynslu og þekkingu á sviði efnahags- eða peningamála eða eitthvað slíkt.

Ég á von á því að í meðförum nefndarinnar muni efnahags- og skattanefnd velta þessu vel fyrir sér og hvaða röksemdir eru að baki þessu. Það mætti líka alveg hugsa sér, án þess að ég ætli að fara að leggja það til, að seðlabankastjóri hefði t.d. doktorspróf í hagfræði. Það eru dæmi um það í ýmsum bönkum að bankastjórar hafi verið með doktorspróf í hagfræði.

Það má velta ýmsu fyrir sér í þessu. En ég held að það sé ekki heppilegt að hafa þetta of þröngt og í mínum huga á það líka við varðandi peningastefnunefndina og þá þekkingu sem þar á að vera innanborðs. Hún hlýtur náttúrlega fyrst og fremst að þurfa að vera til þess fallin að styrkja bankann, styrkja stefnu hans og gera honum betur kleift að standa vörð um þau sjónarmið sem hann á að standa vörð um. Ég fellst því alveg á þau rök og sjónarmið sem fram komu hjá hv. þm. Siv Friðleifsdóttur.