136. löggjafarþing — 76. fundur,  6. feb. 2009.

Seðlabanki Íslands.

280. mál
[16:22]
Horfa

heilbrigðisráðherra (Ögmundur Jónasson) (Vg) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég læt hugann reika til ársins 1996. Þá stóðum við hér í nokkrar vikur og ræddum um breytingar á réttindum opinberra starfsmanna. Ég man alveg hver afstaða hv. þm. Péturs H. Blöndals var þegar við vorum að fjalla um biðlaunaréttinn. Það sem hann gerði þá var að samþykkja afnám biðlaunaréttar. Hv. þingmaður vísar sérstaklega í hann núna en hann var afnuminn með lögum frá 1. janúar árið 1997. Minnist hv. þingmaður þessa? (MÁ: Hann stóð með opinberum starfsmönnum.) Já. Þannig að þessi biðlaunaréttur er ekki lengur við lýði. Hins vegar voru þá sett í lög ákvæði er varða embættismenn sem voru skipaðir til tiltekins tíma, 5 ára og í þessu tilviki 7 ára.

Sá réttur sem lögin færa mönnum er ótvíræður, það er alveg rétt. En það er ekkert í lögum sem bannar það að gengið sé til samninga við fólk. Gerir hv. þingmaður sér grein fyrir því að í nánast öllum stofnunum landsins núna, þar á meðal heilbrigðisstofnunum, viðkvæmum heilbrigðisstofnunum, er verið að ganga til samninga við starfsfólk um skerðingu á kjörum? Það er unnvörpum verið að færa niður starfshlutfall hjá fólki og það er verið að gera þetta hjá fólki sem býr við lök launakjör, þetta sker í hjartað. En ég hef ekki orðið var við neinar slíkar áhyggjur hjá hv. þm. Pétri H. Blöndal. Hvað finnst honum svona hræðilegt við það þegar óskað er eftir því við þá sem tróna hæst í launa- og valdapíramídanum á Íslandi að þeir komi til samninga um starfslok þegar fyrir liggur lagafrumvarp sem gerir ráð fyrir breytingu á stjórnsýslu þeirra stofnana þar sem þeir starfa? Er eitthvað óeðlilegt við það? (PHB: Það er hótun. Já.) Nú.