136. löggjafarþing — 76. fundur,  6. feb. 2009.

Seðlabanki Íslands.

280. mál
[16:25]
Horfa

heilbrigðisráðherra (Ögmundur Jónasson) (Vg) (andsvar):

Hæstv. forseti. Nú er ég farinn að kannast við hv. þm. Pétur H. Blöndal. Það á að skerða réttindin. Það á að draga úr réttindum og veikja réttarstöðu opinberra starfsmanna. Það er ósvinna að í lögum og í samningum skuli vera ákvæði þess efnis að þeim skuli veitt áminning áður en þeir eru reknir úr starfi. Það er hv. þingmaður að segja. Við erum ekki að tala um neitt slíkt hér í þessu tilviki. Það er verið að breyta stjórnsýslu í opinberri stofnun. (PHB: Það er ekki búið að því.) Það er verið að gera tillögur um að leggja niður tiltekin störf. Um það gilda þá ákveðnar reglur sem að sjálfsögðu verður farið eftir í hvívetna. Það á að virða réttindi, það á að virða samninga, það á að virða lög. Því er ég fylgjandi. (REÁ: Lög um réttindi og skyldur opinberra starfsmanna.) Það er alveg rétt hjá hv. þingmanni sem kallar fram í, það er ekki búið að ákveða neitt í þessu en við erum að ræða lagafrumvarp sem gerir ráð fyrir þessu og við erum að ræða hvaða afleiðingar það hefur fyrir tiltekna einstaklinga.

Ég er að segja: Að sjálfsögðu á að virða samninga. Það á að virða lögin og það á að virða rétt (Forseti hringir.) þeirra í hvívetna. En það er ekkert sem bannar það að hið sama (Forseti hringir.) gildi um þá og aðra sem starfa innan ríkisstofnana þar sem slíkar breytingar eiga sér stað (Forseti hringir.) að gengið verði til samninga ef óskað er eftir því.