136. löggjafarþing — 76. fundur,  6. feb. 2009.

Seðlabanki Íslands.

280. mál
[16:46]
Horfa

viðskiptaráðherra (Gylfi Magnússon) (andsvar):

Virðulegi forseti. Vegna fyrirspurnar hv. þm. Birgis Ármannssonar vil ég taka fram að ég tel það mjög mikilvægt í allri umgjörð Seðlabankans að það sé alveg tryggt að peningastefnan sé ákvörðuð innan Seðlabankans. Hana má ekki ákvarða með lögum og enn síður með einhverjum ákvörðunum eða framlagi ríkisstjórnarinnar. Ég tel því að það væru mikil mistök að setja einhver slík fyrirmæli inn í lagafrumvarp um Seðlabanka Íslands.

Hvað varðar samningu frumvarpsins var hún ekki gerð á mínu borði en ég kom að frumvarpinu þegar það var langt komið og kom með ýmsar athugasemdir um breytingar sem flestar gengu eftir. Að öðru leyti get ég ekki svarað fyrir um það hvernig þetta frumvarp varð til.