136. löggjafarþing — 76. fundur,  6. feb. 2009.

Seðlabanki Íslands.

280. mál
[16:47]
Horfa

Birgir Ármannsson (S) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég skil hæstv. viðskiptaráðherra svo að hann hafi ekki talið ástæðu til þess að breyta þáttum í lögum um Seðlabankann sem lúta að peningastefnu og verðlagsmarkmiðum, ég gat ekki skilið orð hans öðruvísi. Því velti ég fyrir mér hvort ráðherrann er þar með ósammála þeirri gagnrýni sem komið hefur fram á verðbólgumarkmið bankans og þau lagaákvæði sem setja honum vissulega þann ramma sem honum ber að starfa innan.

Ég vildi líka inna ráðherrann eftir því — það er út af fyrir sig gott að vita til þess að hæstv. viðskiptaráðherra hefur komið nálægt samningu þessa frumvarps — en ég bið hann að staðfesta þann skilning minn að hann hafi ekki upplýsingar um það hvernig frumvinnu við frumvarpið var háttað, hvernig mati á einstökum þáttum þess og einstökum tillögum sem þarna er að finna var háttað (Forseti hringir.) eða hvaða fyrirmynda var leitað þegar þessar (ÁÞS: … þráhyggju?) upplýsingar voru settar fram. Þetta skiptir máli, hv. þm. Árni Þór Sigurðsson.