136. löggjafarþing — 76. fundur,  6. feb. 2009.

Seðlabanki Íslands.

280. mál
[16:53]
Horfa

viðskiptaráðherra (Gylfi Magnússon) (andsvar):

Virðulegi forseti. Nú þarf ég aðeins að fara í smásagnfræðikennslu aftur en ég þarf reyndar ekki að fara mjög langt aftur í tímann.

Á fimmtudaginn í síðustu viku var ég dósent við Háskóla Íslands og vissi ekki betur en að ég mundi verða það áfram. Þá þegar hefur sjálfsagt verið búið að vinna þetta frumvarp að verulegu leyti. Ég varð ráðherra síðastliðinn sunnudag og var því ekki í þeim hópi sem skipulagði og undirbjó þetta mál, kom raunar ekki inn í ríkisstjórnina fyrr en þennan sunnudag og skil því ekki hvernig í ósköpunum ég ætti að geta upplýst um vinnu sem unnin var af öðrum en mér áður en ég var svo mikið sem kallaður að borðinu.

Að öðru leyti endurtek ég að ég skil ekki að þetta þref þjóni neinum uppbyggilegum tilgangi þótt ég sé almennt hlynntur því að menn virði höfundarrétt og séu með gæsalappir og annað, sem stundum er vandamál.