136. löggjafarþing — 76. fundur,  6. feb. 2009.

Seðlabanki Íslands.

280. mál
[16:57]
Horfa

viðskiptaráðherra (Gylfi Magnússon) (andsvar):

Það er auðvitað ekki hægt að girða fyrir það í lagatexta að opinberir starfsmenn geri mistök, það er auðvitað alveg fráleitt. En það er hægt að gera ákveðnar hæfniskröfur og það er hægt að setja upp ákveðið skipulag sem dregur úr líkunum á því.

Peningastefnunefndin verður fjölskipað stjórnvald og auðvitað dregur það úr líkunum á því að mistök einhvers eins manns ... (Gripið fram í: Það var ekki einn heldur voru þeir þrír.) Þeir eru þrír núna en þeir gefa ekki upp hvernig þeir kjósa, hvernig meiri hluti og minni hluti skiptist. Það getur vel komið upp sú staða að formaður bankastjórnar sé í minni hluta, við höfum ekki hugmynd um það. Það er eitt af því sem mætti sannarlega huga að og er reyndar gert í ýmsum öðrum löndum, að umræður peningastefnunefndar eða hliðstæðs stjórnvalds eru gerðar opinberar og menn gera t.d. opinbert um ágreining við meiri hluta. Það er eitt af því sem mætti skoða og væri kannski liður í opinberri stjórnsýslu sem virðist vera mörgum hér mjög ofarlega í huga og ég er reyndar almennt auðvitað hlynntur.